Segir ómögulegt að ruglast á tegundunum

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. mbl.is/Ómar

„Þegar hval­ur­inn synd­ir í sjón­um þá er hann eins og langreyður, svo segja þeir mér þarna á hval­bátn­um. Steypireyður er allt öðru­vísi, þú sérð strax mun­inn,“ seg­ir Kristján Lofts­son, for­stjóri Hvals hf., um hval­inn sem landað var í Hval­f­irði aðfaranótt sunnu­dags og hef­ur vakið heims­at­hygli. „Steypireyður er blá yf­ir­lit­um, enda heit­ir hann ‚blue whale‘ á ensku.“

Eft­ir að dýra­vernd­un­ar­sam­tök­in Hard To Port vöktu at­hygli á að um sjald­gæf­an blend­ings­hval gæti verið að ræða hafa spek­ing­ar um heim all­an velt fyr­ir sér hvort að hval­ur­inn sé í raun steypireyður.

Dýraverndunarsamtökin Hard To Port telja Hval hf. hafa veitt sjaldgæfan …
Dýra­vernd­un­ar­sam­tök­in Hard To Port telja Hval hf. hafa veitt sjald­gæf­an blend­ings­hval. Ljós­mynd/​Hard To Port

Er­lend­ir fjöl­miðlar hafa fjallað um málið í dag og í um­fjöll­un BBC kem­ur fram í máli nokk­urra sér­fræðinga að þeir séu viss­ir um að steypireyði sé að ræða. „Að rugl­ast á steypireyði og langreyði er ómögu­legt,“ seg­ir Kristján í sam­tali við bresku frétta­stof­una og seg­ist hand­viss um að blend­ings­hval, af­kvæmi steypireyðar og langreyðar, sé að ræða.

„Við sjá­um mikið af þeim, þó nokkra nú þegar og meira þegar fer að líða á sum­arið. Þeir blása, við sjá­um þá í fjarska og keyr­um svo að þeim. Þegar við kom­um nær sjá­um við að þetta er steypireyður og lát­um hann vera og för­um að leita að langreyði. Þetta er  búið að vera svona al­veg síðan þeir voru friðaðir hér við land 1959. Við höf­um aldrei veitt steypireyði síðan,“ út­skýr­ir hann fyr­ir blaðamanni mbl.is.

Segja veiðar á blend­ings­hvöl­um á gráu svæði

Aðspurður seg­ist Kristján halda að Hval­ur hf. hafi veitt fimm blend­ings­hvali, þann fyrsta árið 1987. Sjálf­ur hef­ur hann séð einn eða tvo og seg­ir þann sem landað var nú um helg­ina keim­lík­an.

Í frétt BBC af mál­inu seg­ir að blend­ings­hval­ir séu afar sjald­gæf­ir og að veiðar á þeim séu á „gráu svæði“ og gefi veiðimönn­um mögu­leik­ann á að af­saka sig með því að segj­ast hafa gert mis­tök.

Um fjöl­miðlaat­hygl­ina sem málið hef­ur hlotið seg­ir Kristján þetta minna á hjarðhegðun og spyr sig hvort ekki sé gúrkutíð. „Við höf­um fengið þessa fimm áður og svo fáum við allt í einu þenn­an eina, þá fer allt á ann­an end­ann.“

Kristján seg­ir fjöl­mörg sýni tek­in úr hverj­um hval sem eru síðan rann­sökuð yfir vet­ur­inn. Hann seg­ir DNA-mengi blend­ings­hval­anna aug­ljós­lega frá­brugðin steypireyðum og langreyðum. Í ein­um blend­ings­hval hafi fund­ist fóst­ur, sem sé afar óvenju­legt enda séu blend­ings­teg­und­ir venju­lega ófrjó­ar. „Það var rann­sakað mjög vel og þótti mjög merki­legt.“

Kristján Þór hefur sagt að sér þyki ekki ástæða til …
Kristján Þór hef­ur sagt að sér þyki ekki ástæða til að end­ur­skoða hval­veiðar Íslend­inga. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, sagði við BBC að þrátt fyr­ir að við fyrstu skoðanir líti ekki út fyr­ir að um steypireyði sé að ræða taki stjórn­völd málið mjög al­var­lega. Hann seg­ist að svo stöddu ekki geta staðfest teg­und hvals­ins, en að talið sé lík­legt að um blend­ing sé að ræða. DNA-próf muni skera úr um það og seg­ir Kristján Þór að fram­kvæmd þess verði flýtt.

mbl.is