Lögreglan í Las Vegas birti í gær upptöku úr myndavél sem lögreglumaður bar þar sem hann sést skjóta gegnum framrúðu bíls síns á meðan hann ekur á miklum hraða í eftirför. Maður, sem grunaður er um morð, féll í skothríð lögreglunnar.
Á myndbandinu má sjá að lögreglumaðurinn situr undir stýri. Hann grípur til byssu sinnar og skýtur út í gegnum framrúðuna til að stöðva för hins grunaða.
Atvikið átti sér stað 11. júlí eftir að útkall vegna morðtilraunar barst. Áður en lögreglumaðurinn hleypir af má heyra hann segja ítrekað í talstöðina: „Skothríð, skothríð“ (e. shots fired).
Lögreglan í Las Vegas segir að lögreglumennirnir hafi verið að elta tvo grunaða menn sem hafi skotið 34 skotum á lögreglumennina og bíla þeirra.
Lögreglumennirnir svöruðu með 32 skotum. Þeim tókst að lokum að stöðva för bíls hinna grunuðu. Fidel Miranda, 23 ára, lést í skothríð lögreglunnar. Hinn maðurinn var handtekinn en fluttur á sjúkrahús vegna skotsára sem hann hlaut.
Rannsókn stendur nú yfir á því hvort að lögreglan hafi beitt óhóflegu valdi. Mennirnir tveir eru grunaðir um að hafa skotið 25 ára mann til bana.