Býflugnaræktendafélag Íslands hefur sent Matvælastofnun (MAST) ábendingu þar sem áhyggjum af réttarstöðu býflugnabænda og velferð býflugna í tengslum við notkun eiturefna við við eyðingu á skordýrum er lýst. Af þessu tilefni hefur MAST sent frá sér tilkynningu þar sem athygli er vakin á því þeir sem hafa leyfi til garðaúðunar skuli samkvæmt starfsleyfi ávallt gæta varúðar við meðferð varnarefna þannig að ekki valdi tjóni á heilsu eða umhveri utan þess svæðis sem meðhöndlað er.
Notkun eiturefna við garðaúðun, eftirlit með slíkri starfsemi og útgáfa starfsleyfa heyrir ekki undir MAST, líkt og fram kemur í tilkynningu, en það gerir velferð býflugna.
Þeir sem leyfi hafa til garðaúðunar skulu leitast við að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif af úðun, og sé þess kostur skal skipta út varnarefnum sem talin eru geta haft í för með sér óæskileg áhrif á heilsu manna eða skaða umhverfið utan þess svæðis sem verið er að meðhöndla, fyrir hættuminna varnarefni.
Hunangsframleiðsla býflugna til manneldis getur orðið fyrir skemmdum ef býflugur sem lent hafa í garðaúðunareitri bera það inn í búið. Með þeim hætti getur eitrið borist í neytendur. „Hafa ber í huga að býflugnabú eru nú nokkuð á annað hundrað og er að finna víðs vegar um landið. Matvælastofnun brýnir fyrir þeim sem leyfi hafa til garðaúðunar að kanna vel hvort býflugnabú eru í nágrenni við þá garða þar sem til stendur að úða.“