Hundruð Hui-múslima í norðvesturhluta Kína reyna nú hvað þeir geta að koma í veg fyrir að nýlega byggð moska þeirra verði eyðilögð. Embættismenn segja að Weizhou-moskan, sem er í Ningxia-héraði í Kína, hafi verið byggð án þess að tilskilin byggingaleyfi væru fyrir hendi.
Til stendur að eyðileggja moskuna, en múslimarnir hafa efnt til fjöldamótmæla til þess að koma í veg fyrir að yfirvöld nái að rífa bygginguna.
23 milljónir íbúa í Kína eru múslimar og hefur íslamstrú verið útbreidd í Ningxia-héraði í aldaraðir. Moskan er byggð í mið-austurlenskum stíl, með hvelfingum og háum turnum.
Moskur í Kína hafa oftast verið byggðar í kínverskum stíl, sem er talsvert frábrugðinn þeim mið-austurlenska. Fréttaritari BBC í Kína segir að andstaða yfirvalda í Ningxia-héraði við moskuna byggist ef til vill á byggingarstílnum, sem þykir benda til aukinna arabískra áhrifa í kínverskri íslamstrú.
Yfirvöld tilkynntu að moskan yrði eyðilögð 3. ágúst síðastliðinn og var tilkynningu yfirvalda dreift á meðal Hui-múslima á internetinu, samkvæmt frétt Reuters um málið.
Margir hafa spurt sig að því af hverju bygging moskunnar hafi ekki verið stöðvuð á fyrri stigum, en bygging hennar tók tvö ár.
Mótmæli fyrir framan moskuna hófust í gær og héldu áfram í dag, en á samfélagsmiðlum má sjá myndir að hundruðum múslima sem safnast hafa saman fyrir framan moskuna og vilja með því koma í veg fyrir að niðurrifsframkvæmdir yfirvalda geti hafist.
Íbúi sem BBC ræðir við segir að Hui-múslimar og kínversk yfirvöld séu komin í hálfgerða störukeppni vegna málsins. Almenningur á svæðinu hyggist ekki leyfa yfirvöldum að snerta moskuna, en yfirvöld láti ekki bilbug á sér finna.
Rífa átti bygginguna í dag, en óljóst er hvort af því verður. Mögulega verður einhver málamiðlun fundin til að allir geti gengið sáttir frá borði.
Talsmaður samtaka múslima í héraðinu segir að yfirvöld hyggist ekki rífa moskuna algjörlega, heldur breyta útliti hennar og minnka hana, en byggingin er gríðarstór.
Samkvæmt orðanna hljóðan tryggir kínverska stjórnarskráin trúfrelsi þegnanna, en í raun er trúarlíf Kínverja undir miklu eftirliti ríkisstjórnarinnar. Kristnar kirkjur hafa til dæmis verið skikkaðar til að fjarlægja krossa af þökum bygginganna, einmitt á þeim grundvelli að táknin brjóti gegn byggingarreglugerðum.
Kommúnistaflokkurinn sem öllu ræður í Kína kennir sig ekki við trúarbrögð og hefur á síðustu árum haft áhyggjur af erlendum áhrifum innan trúarbragða í Kína og ráðist í herferð gegn þeim.
Hui-múslimar hafa að mestu verið þægilegir þegnar og fengið að iðka sína trú í friði, en Uighur-múslimar í Xinjiang-héraði, vestast í Kína, hafa á undanförnum árum orðið fyrir auknu áreiti stjórnvalda trúar sinnar vegna.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að þúsundir Uighur-múslima hafi verið sendir í endurmenntunarbúðir yfirvalda, þar sem þeim er gert að afneita trú sinni.
Amnesty International segir að ákvörðun yfirvalda um að rífa moskuna í Ningxia-héraði sýni að nú ætli Kommúnistaflokkurinn að setja hömlur á trúariðkun fleiri minnihlutahópa múslima í Kína.