Stjórnvöld verða að stíga varlega til jarðar í skattlagningu á íslenska bifreiðaeigendur segir Jón Kristján Sigurðsson, ritstjóri hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), inntur eftir viðbrögðum við tillögum starfshóps um skattlagningu ökutækja og eldsneytis.
Í Morgunblaðinu í gær kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að frumvarp, byggt á skýrslunni yrði sett á þingmálaskrá. Sagði hann nærtækt að taka skatta af umferð til að standa undir kröfum um uppbyggingu samgöngumannvirkja, heimta í auknum mæli gjöld fyrir ekna kílómetra í stað seldra lítra á bensínstöðvum.
„Bifreiðaeigendur eru nú þegar að borga mikla skatta. Stór hluti fjármunanna hefur ekki farið í þær framkvæmdir sem þeir eiga að fara í. Ef þessir peningar fara að fullu í viðhald og uppbyggingu, þá held ég að það þurfi ekki að leggja á veggjöld og annað með þeim hætti sem hefur verið til umræðu hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Jón Kristján.
Vegagerðarinnar bíður mikil vinna í uppbyggingu á vegakerfinu að sögn Jóns Kristjáns. „Eftir hrunið var lítið sem ekkert gert í þessum málum og fyrst á síðustu tveimur árum sem farið er að verja meira fé til uppbyggingar og viðhalds á vegakerfinu. Niðurstaða Eurowrap-könnunarinnar á vegakerfinu sem FÍB hafði framkvæmd á sýnir að við þurfum verulega að taka til hendinni,“ segir hann. „Álögur og skattar á bílaeigendur hafa í gegnum tíðina verið meiri en góðu hófi gegnir. Íslenskir bifreiðaeigendur greiða eina hæstu skatta sem í gildi eru í Evrópu. Stjórnvöld þurfa að stíga varlega til jarðar í þessum aðgerðum,“ segir hann.
Jón Kristján segist sammála Bjarna um að sjálfbærni Íslendinga í orkumálum, með tilkomu raf-, tvinn- og tengiltvinnbíla sé jákvæð fyrir íslenska bifreiða eigendur.
„Þessari þróun í tækni mun fleygja fram, en ég held það muni ekki gerast jafn hratt og búist hefur verið við. Við fögnum innkomu þessara bíla því þeir munu menga minna en bílar knúnir af jarðefnaeldsneyti, bensíni og dísil,“ segir hann.