Hafrannsóknastofnun metur burðarþol Seyðisfjarðar með tilliti til sjókvíaeldis allt að tíu þúsund tonn á ári. „Vegna aðstæðna í Seyðisfirði og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif áætlaðs eldis á vatnsgæði og botndýralíf, telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 10.000 tonna lífmassa í Seyðisfirði á ári,“ segir á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.
Jafnframt kemur þar fram að vöktun á áhrifum eldisins fari fram og hún yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum. Þá er bent á í greinargerð með burðarþolsmatinu að æskilegra sé að eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar.
Þar kemur fram að í Seyðisfirði er mesta dýpi 89 metrar utarlega í firðinum og grunn eða nokkurs konar þröskuldur er utan fjarðarins með um 69 m dýpi. Nokkurt svæði í ytri hluta fjarðarins er dýpra en 80 metrar, en meðaldýpi fjarðarins er um 55 metrar.
Dýpi fjarðarins er þannig háttað að frá grunni ofan 20 metra dýpkar hratt niður á meira en 60 metra og því má gera ráð fyrir að botnfall frá fiskeldi falli og skríði nokkuð hratt niður í djúplag fjarðarins, segir í greinargerðinni. Lengd fjarðarins er um 17,5 kílómetrar, flatarmál er um 34 ferkílómetrar og rúmmálið er um 1,88 rúmkílómetrar.
Í lögum um fiskeldi er ákvæði um að rekstrarleyfi skuli fylgja burðarþolsmat sem framkvæmt sé af Hafrannsóknastofnun. Í lögunum er mat á burðarþoli svæða skilgreint sem þol þeirra til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið.
Á heimasíðu Umhverfisstofnunar er hugtakið vatnshlot skýrt með því að það sé notað um allt það vatn sem er að finna í t.d. strandsjó eða stöðuvatni.