Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, segir að stjórnvöld í Íran geti ekki forðast að ræða ágreiningsatriði sem tengjast framtíð kjarnorkusamkomulags ríkisins við Kína, Rússland, Frakkland, Bretland og Þýskaland.
Í nýútkominni skýrslu á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, kemur fram að stjórnvöld í Íran hafi staðið við samkomulagið sem skrifað var undir árið 2015. Skuldbindingar ríkisins gagnvart samkomulaginu hafa verið í eldlínunni frá því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró Bandaríkin út úr samkomulaginu í maí.
Le Drian segir að ágreiningsatriði séu þrenns konar. Í fyrsta lagi þarf að ræða skuldbindingar Írans eftir að samkomulagið rennur út árið 2025. Í öðru lagi snúa ágreiningsatriðin að flugskeytaframleiðslu íranskra stjórnvalda og í þriðja lagi um útbreiðslu flugskeytanna til nágrannaríkja Írans.
Stjórnvöld í Washington vilja setjast að samningaborðinu með stjórnvöldum í Íran. Forseti Írans tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann væri tilbúinn að hefja viðræður þegar í stað, en hann hefur hingað til ekki tekið undir boð Donalds Trump Bandaríkjaforseta um fund.
Bandarísk stjórnvöld hafa komið á refsiaðgerðum gegn bílaiðnaði í Íran sem og viðskiptum með gull og aðra málma. Enn frekari höft taka svo gildi 5. nóvember og munu refsiaðgerðirnar þar eftir einnig taka til hafna Írans, orku-, olíu- og skipaiðnaðar.