Hyggur á nýtt frumvarp um veiðigjöld

"Geta fólksins til að búa til verðmæti vex ár frá ári og það er ákaflega gleðilegt,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra seg­ir fiski­stofna á Íslands­miðum al­mennt hafa verið að styrkj­ast og að ráðgjöf­in frá Haf­rann­sókna­stofn­un gefi efni til ákveðinn­ar bjart­sýni í þeim efn­um.

„Það er full ástæða til að gleðjast þegar vel geng­ur og sömu­leiðis er það mikið fagnaðarefni að þingið sé búið að taka þessa langþráðu ákvörðun um að smíða nýtt rann­sókna­skip, sem er fyr­ir löngu orðið tíma­bært,“ seg­ir Kristján.

Eig­um hæft fólk á öll­um sviðum

„Hins veg­ar er það áhyggju­efni að afla­verðmæti hef­ur verið að drag­ast sam­an. Það hef­ur verið sam­drátt­ur í loðnu­afla en botn­fisk­ur­inn er sam­bæri­leg­ur og hann hef­ur verið,“ seg­ir ráðherr­ann.

„Þetta kall­ar á það að menn séu alltaf á tán­um og reiðubún­ir að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir hvar svo sem þær kunna að fel­ast, hvort sem það er í framþróun veiða og vinnslu eða upp­bygg­ingu vís­inda og þekk­ing­ar. Við eig­um sem bet­ur fer, á öll­um þess­um sviðum, mjög hæft fólk sem í mörg­um efn­um vinn­ur al­gjör­lega frá­bært starf, bæði til sjós og lands.“

Eng­in ástæða til að hvika frá

Ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um afla­heim­ild­ir nýhaf­ins fisk­veiðiárs var ekki lang­an tíma á borði ráðherr­ans áður en hann af­greiddi hana án breyt­inga. Spurður hvort til greina hafi komið að víkja frá ráðgjöf­inni seg­ir hann að það komi alltaf til greina hverju sinni.

„En þessi ráðgjöf er mjög vel rök­studd og við höf­um fylgt ráðum okk­ar fær­asta fólks á þessu sviði í nokkuð lang­an tíma. Við gef­um okk­ur út fyr­ir það að nýta með sjálf­bær­um hætti fiski­stofn­ana í haf­inu í kring­um landið og sú stefna sem við höf­um haft hef­ur skilað okk­ur á þann stað sem við erum á í dag. Ég sé því enga ástæðu til að hvika nokkuð frá henni.“

Strand­veiðarn­ar gengið vel

Fyr­ir­komu­lagi strand­veiða var breytt tölu­vert með lög­um frá Alþingi í vor, þar sem öll­um bát­um á strand­veiðum voru heim­ilaðir tólf dag­ar til veiða í maí, júní, júlí og ág­úst. Þó var ráðherra feng­in heim­ild til að stöðva veiðar ef sýnt þætti að heild­arafli færi um­fram það sem ætlað væri til strand­veiða á ár­inu. Svo fór ekki að þessu sinni.

Einnig var í frum­varp­inu ákvæði sem heim­ilað hef­ur strand­veiðibát­um að landa ufsa án þess að hann telj­ist til viðmiðunar í há­marks­afla til strand­veiða.

Kristján seg­ir breyt­ing­arn­ar hafa reynst vel, þrátt fyr­ir óánægjuradd­ir í vor. „Veiðarn­ar virðast hafa gengið ágæt­lega og flest­um þeim mark­miðum, sem fólk setti sér við gerð þess­ara breyt­inga, virðist hafa verið náð,“ seg­ir hann og bæt­ir við að sér sýn­ist sem afla­magnið á svæðunum fjór­um hafi dugað til að flest­ir bát­ar hafi náð sín­um tólf dög­um. „Það ættu flest­ir að geta unað við þessa stöðu.“

Í vet­ur hefst und­ir­bún­ings­vinna við nýja lög­gjöf um strand­veiðarn­ar, að feng­inni reynslu þessa bráðabirgðaákvæðis í sum­ar. „Þá horf­um við til reynsl­unn­ar í ár og kom­um fram með á næsta vori nýtt frum­varp um fram­hald strand­veiða,“ seg­ir Kristján en aðspurður seg­ir hann eng­ar aðrar sér­stak­ar breyt­ing­ar fyr­ir­hugaðar að sinni.

„En gert er ráð fyr­ir því í stjórn­arsátt­mál­an­um að við för­um yfir þenn­an þátt fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins, sem snýr að pott­un­um svo­kölluðu, og ég hyggst leggj­ast í þá vinnu í vet­ur.“

End­ur­spegli ekki af­kom­una

Frum­varp at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is, um end­urút­reikn­ing veiðigjalda hjá litl­um og meðal­stór­um út­gerðum, varð ekki að lög­um í vor eft­ir tölu­verðan vand­ræðagang á þing­inu. Spurður hvort frum­varpið verði sett aft­ur á dag­skrá í haust seg­ist Kristján held­ur ætla að leggja fram frum­varp að nýj­um heild­ar­lög­um um veiðigjöld

„Við smíðina á því frum­varpi hyggst ég meðal ann­ars taka mið af þeim at­huga­semd­um sem fram komu við frum­varp at­vinnu­vega­nefnd­ar, og þeim sjón­ar­miðum sem þar komu fram. Vissu­lega voru það ákveðin von­brigði að ná ekki sam­komu­lagi um breyt­ing­ar á veiðigjöld­un­um í vor, þar sem vís­bend­ing­ar eru um það að kerfið í nú­ver­andi mynd end­ur­spegli ekki nægi­lega vel af­komu grein­ar­inn­ar,“ seg­ir Kristján.

Sam­fé­lags­sátt um veiðigjöld­in

„En það breyt­ir því ekki að kerfið var sett á og við þurf­um að vinna sam­kvæmt því þangað til því verður breytt. Mark­mið mitt er að frum­varpið sem fram kem­ur í haust taki á þeim ágöll­um sem finna má í nú­ver­andi kerfi, og þá er stærsta atriðið í raun­inni það að reyna að færa álagn­ingu þess­ara gjalda sem næst okk­ur í tíma. Í því felst mesta áskor­un­in.“

Ráðherr­ann seg­ist enn frem­ur finna fyr­ir ágæt­is sátt í sam­fé­lag­inu um að greidd skuli gjöld fyr­ir nýt­ingu auðlinda sem eru und­ir for­ræði rík­is­ins. „Átök­in um veiðigjöld­in hafa að mestu snú­ist um fyr­ir­komu­lag inn­heimt­unn­ar, hvernig til þeirra er stofnað og svo fjár­hæðirn­ar.“

Spurður hvort fyr­ir­tæki í fisk­eldi megi vænta keim­líkra gjalda seg­ir Kristján að það hafi verið hluti af þeirri sátt sem gerð var á milli veiðirétt­ar­hafa ann­ars veg­ar og fisk­eld­is­fyr­ir­tækja hins veg­ar.

„Ég er að sjálf­sögðu að skoða þann þátt í sam­ræmi við sátt­ina. En ég held að við hljót­um að þurfa að ræða það hvort ekki sé orðið skyn­sam­legra að ríkið ákveði fyr­ir fullt og allt með hvaða hætti það ætl­ar að skatt­leggja nýt­ingu auðlinda sem eru á þess for­ræði, frek­ar en að út­búa ein­hvers kon­ar sér­staka skatt­heimtu fyr­ir ein­stak­ar grein­ar holt og bolt,“ seg­ir Kristján.

„Þegar farið er að kalla eft­ir því að auðlinda­gjald nokk­urs kon­ar verði lagt á fleiri grein­ar en færri – þegar umræðan er orðin svona – þá er ekki fjar­lægt að hugsa sér það að skyn­sam­legt gæti verið að ríkið markaði sér al­menna reglu um það hvernig gjald­töku af auðlind­um eigi að vera háttað.

Eft­ir­lits­frum­varpið gagn­rýnt

Greint var frá því á vef 200 mílna í ág­úst­mánuði að Fiski­stofu verður heim­ilt að vakta lönd­un og vigt­un afla með ra­f­ræn­um eft­ir­lits­mynda­vél­um, auk þess sem hún mun geta nýtt sér fjar­stýrð loft­för við eft­ir­lits­störf verði vænt­an­legt frum­varp sjáv­ar­út­vegs­ráðherra að veru­leika.

Vísað var í drög að frum­varp­inu, sem er að finna á vef Stjórn­ar­ráðsins, en þar seg­ir að varla hafi nokkr­um dulist sú umræða sem uppi hafi verið í fjöl­miðlum um skort á eft­ir­lits­heim­ild­um Fiski­stofu til að sinna fisk­veiðieft­ir­liti og gagn­rýni á lagaum­gjörð eft­ir­lits­ins.

Drög þessi hafa sætt þónokk­urri gagn­rýni í kjöl­far um­fjöll­un­ar­inn­ar, meðal ann­ars af hálfu Sam­bands ungra sjálf­stæðismanna, Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og ekki síst Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi. Á vef SFS seg­ir að svo virðist sem grund­völl­ur laga­setn­ing­ar­inn­ar sé al­mannaróm­ur þar sem niður­stöður rann­sókna hafi ekki sýnt fram á að brott­kast tíðkist í mikl­um mæli. Þá seg­ir enn frem­ur að það tæki starfs­mann 7.200 klukku­stund­ir að fara yfir mynd­efni frá skipi sem væri 300 daga á ári við veiðar og vinnslu, eða þrjú ár og 274 daga.

Mik­il­vægt að virða regl­urn­ar

Kristján seg­ist hafa átt von á upp­byggi­legri viðbrögðum. „Ég átti von á að menn myndu senda inn til­lög­ur og hug­mynd­ir að því með hvaða hætti mætti berja í þessa bresti. Það sem ég vil segja um þetta mál er að það er gríðarlega mik­il­vægt að all­ir fylgi veiðiráðgjöf­inni og virði þær regl­ur sem í lög hafa verið leidd­ar, hvort sem það er við út­reikn­ing afla­magns, vigt­un eða hvað við kem­ur brott­kasti,“ seg­ir hann.

„Ég hef raun­ar þá trú að þetta hafi batnað stór­um á síðustu árum, og veru­leg­ur sam­drátt­ur orðið á þessu. Engu að síður tel ég þörf á því að viðhaft sé eft­ir­lit með um­gengni um auðlind­ina á öll­um stig­um en að því verði skipað þannig að það verði bæði sem kostnaðarminnst fyr­ir hið op­in­bera og eins þá sem eru eft­ir­lits­skyld­ir.“

Kristján tek­ur fram að um sé að ræða drög að frum­varpi. Sjálft frum­varpið verði ekki frá­gengið fyrr en búið verði að fá út­tekt Rík­is­end­ur­skoðunar á starf­semi Fiski­stofu, sem vænt­an­leg sé með haust­inu. „Þá vilj­um við fara yfir þær um­sagn­ir sem ber­ast og ein­beita okk­ur að þeim gagn­legu til­lög­um sem þeim kunna að fylgja. Það er öll­um ljóst sem vilja vita það hef­ur eng­inn áhuga á því að byggja hér upp eft­ir­lit­s­kerfi sem yrði ein­hvers kon­ar stóri bróðir. Sem bet­ur fer er lít­il stemn­ing fyr­ir því og eng­in hugs­un í þá veru held­ur.“

Mik­il­væg­ur loðnu­samn­ing­ur

Þriggja ára samn­ingaviðræðum milli Íslands, Græn­lands og Nor­egs lauk fyrr í sum­ar með und­ir­rit­un nýs samn­ings um hlut­deild í loðnu­kvóta milli ríkj­anna. Sam­kvæmt samn­ingn­um fær Ísland 80% loðnu­kvót­ans, Græn­land 15% og Nor­eg­ur 5%, en nær eng­in loðna er leng­ur veidd nema í lög­sögu Íslands auk þess sem hún hef­ur ekki verið veidd að sumri í mörg ár.

Kristján seg­ist ánægður með að hafa náð sam­komu­lagi við grann­rík­in tvö. „Það er mik­il­vægt að þessi samn­ing­ur sé kom­inn á, um hvernig nýt­ingu þessa mik­il­væga stofns eigi að vera háttað, því það er al­gjört grund­vall­ar­atriði. Í því sam­bandi þarf bara að horfa til þess hvernig þjóðirn­ar við Norður-Atlants­hafið um­gang­ast kol­munna, mak­ríl og síld, þar sem sókn­in er langt um­fram ráðgjöf og al­gjör­lega ósjálf­bær,“ seg­ir Kristján.

„Það er því gleðilegt að ná samn­ing­um við ná­granna okk­ar um loðnuna, því hún er okk­ur mjög mik­il­væg bæði sem nytja­stofn en ekki síður sem fæða fyr­ir aðra fiski­stofna á Íslands­miðunum. Af þeim sök­um er það tölu­vert um­hugs­un­ar­efni að þetta skuli vera eini deili­stofn­inn í Norður-Atlants­hafi sem sam­komu­lag næst um. Það er mjög merki­legt því all­ar þess­ar þjóðir sem hér lifa og starfa gefa sig út fyr­ir það að vera með sjálf­bæra nýt­ingu í huga, og þá er mjög ein­kenni­legt að við skul­um ekki geta náð sam­an um nýt­ingu á þeim nót­um.“

Ótrú­leg tækni og þekk­ing

Að lok­um tel­ur Kristján vert að geta þess að sjáv­ar­út­veg­ur árið 2018 snú­ist um meira en hefðbundnu út­gerðirn­ar sem sæki fisk­inn í sjó­inn, þó að hlut­verk þeirra sé vissu­lega stórt. Íslensk tæknifyr­ir­tæki veki sí­fellt meiri at­hygli er­lend­is og hasli sér ört völl fjarri heima­slóðum.

„Ef maður horf­ir yfir sjáv­ar­út­veg­inn hér á Íslandi, frá minnstu ein­ingu til hinn­ar stærstu, og allt það sem við kem­ur því að sækja þenn­an afla sem við fáum úr sjón­um, vinna hann og koma hon­um á markað er­lend­is, þá er al­veg ótrú­legt að sjá þá tækni, þekk­ingu og getu sem býr í at­vinnu­grein­inni. Geta fólks­ins til að búa til verðmæti vex ár frá ári og það er ákaf­lega gleðilegt.“

Í saltfiskvinnslu Ekta fisks á Hauganesi við Eyjafjörð.
Í salt­fisk­vinnslu Ekta fisks á Hauga­nesi við Eyja­fjörð. mbl.is/​Sig­urður Bogi
Átökin um veiðigjöldin hafa að mestu snúist um fyrirkomulag innheimtunnar, …
Átök­in um veiðigjöld­in hafa að mestu snú­ist um fyr­ir­komu­lag inn­heimt­unn­ar, hvernig til þeirra er stofnað og svo fjár­hæðirn­ar, seg­ir sjáv­ar­út­vegs­ráðherra.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: