Boða til stjórnarfundar vegna kaupa á Ögurvík

HB Grandi hefur keypt Ögurvík, en kaupin eru gerð með …
HB Grandi hefur keypt Ögurvík, en kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki stjórnar og hluthafafundar. mbl.is/Hjörtur

Boðað hefur verið til stjórnarfundar í HB Granda á fimmtudaginn í þessari viku þar sem fjallað verður um kaupin á útgerðinni Ögurvík sem tilkynnt var um eftir lokun markaða á föstudaginn. Kaupverðið er um 12,3 milljarðar króna, en getur tekið leiðréttingum miðað við niðurstöðu fjárhagsuppgjörs Ögurvík miðað við lok ágúst. Voru kaupin gerð með fyrirvara um samþykki stjórnar HB Granda og hluthafafundar félagsins.

Guðmundur Kristjánsson, sem oft er kenndur við Brim, tók við sem forstjóri HB Granda í júní, en hann keypti í gegnum Brim 34% hlut í HB Granda í apríl og bætti við um 3% með yfirtökutilboði til annarra hluthafa í maí og júní. Eign­ar­hlut­ur Brims hf. nemur nú 37,96% af heild­ar­hluta­fé HB Granda hf. Fyrir um tveimur árum keypti Brim Ögurvík, sem nú hefur verið seld til HB Granda.

Guðmundur sagði af sér sem forstjóri Brims og úr stjórn félagsins eftir að hafa keypt hlutinn í HB Granda.

mbl.is