FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki hefur gengið frá samningi um kaup á öllum eignarhlut Brims hf. í Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum. Um er að ræða þriðjungshlut alls hlutafjár í Vinnslustöðinni og nemur kaupverðið 9.400.000.000 krónum.
Fram kemur í tilkynningu að stjórn og stjórnendur FISK-Seafood ehf. vænti góðs samstarfs við eigendur og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hf. og sjái mikil tækifæri í rekstri félagsins og samvinnu þessara tveggja sjávarútvegsfyrirtækja.
Stjórn HB Granda samþykkti í síðustu viku að kaupa útgerðarfélagið Ögurvík af Brimi hf., sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra HB Granda. Guðmundur tók við stöðu forstjóra í júní eftir að hann keypti í gegnum Brim 34,1% eignarhlut í HB Granda af Kristjáni Loftssyni og Halldóri Teitssyni, en með því varð Brim stærsti hluthafi útgerðarinnar.
Nafni Brims var svo á föstudag breytt í Útgerðarfélag Reykjavíkur. Félagið gerir út skuttogarana Guðmund í Nesi RE-13 og Kleifaberg RE-70, en þeir fengu samtals úthlutað aflamark fyrir nýhafið fiskveiðiár sem nemur um 15.580 þorskígildistonnum.