Kynntu íslenskar lausnir í Rússlandi

Frá íslenska básnum á sýningunni.
Frá íslenska básnum á sýningunni. Ljósmynd/Íslandsstofa

Íslandsstofa, í samvinnu við sendiráð Íslands í Rússlandi, tók á dögunum þátt í alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni Global Fishery Forum & Seafood Expo Russia í Sankti Pétursborg.

Þetta kemur fram á vef stofunnar, þar sem segir að hún hafi staðið fyrir svokölluðum þjóðarbás með tíu íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegstækni. Auk þeirra tóku þátt í sýningunni á eigin vegum fyrirtækin Kapp, Marel, Skipasýn og Sæplast.

Á básnum kynntu fyrirtækin hugvitssamar lausnir og þjónustu undir merkjum Íslands og Sea Tech Solutions. Á sýningunni gafst einnig gott tækifæri til að mynda ný viðskiptatengsl og styrkja þau sem fyrir voru, að því er segir á vef stofunnar.

Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt á þjóðarbás Íslands voru Borgarplast, Brimrún, D-Tech, Frost, Knarr; Nautic, Naust Marine, Polar Doors, Skaginn 3X, Skipatækni og Valka.

Samhljómur er sagður hafa verið um að talsverð tækifæri séu fyrir íslenska sjávarútvegstækni á rússneskum markaði og mál manna mun vera að vel hafi tekist til hjá íslensku fyrirtækjunum á sýningunni, en nokkur af þeim hafa þegar komið sér vel fyrir á Rússlandsmarkaði.

„Á KNARR-básnum fór m.a. fram formleg opnun á Nautic Rus, rússneskri verkfræðistofu á sviði skipahönnunar sem íslenska fyrirtækið Nautic ehf. eignaðist ráðandi hlut í fyrr á árinu. Í tilefni opnunarinnar klipptu Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Rússlandi, og Alfreð Tulinius stjórnarformaður á borða á sýningunni til að marka formlega opnun Nautic Rus,“ segir á vef stofunnar.

Íslenski hópurinn tók jafnframt þátt í ráðstefnuhluta sýningarinnar. Sendiráð Íslands í Moskvu og Íslandsstofa höfðu þar umsjón með skipulagningu smærri viðburðar þar sem hluti íslensku sendinefndarinnar kynnti vörur sínar og þjónustu auk þess taka þátt í pallborðsumræðum. Meðal ræðumanna voru m.a. Alfreð Tulinius hjá Nautic Rus, og Jónas Tryggvason hjá KNARR.

mbl.is