Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK-Seafood ehf., segir fyrirtækið sjá mikil tækifæri í rekstri Vinnslustöðvarinnar. 200 mílur greindu fyrr í dag frá kaupum FISK á öllum hlut Brims hf. í útgerðinni, fyrir 9,4 milljarða króna.
„Það hefur verið mikil umræða um að Brim hygðist selja þennan eignarhlut, og í framhaldinu fórum við í viðræður um þessi kaup,“ segir Jón Eðvald í samtali við 200 mílur.
Tekur hann fram að hjá FISK hafi menn væntingar um gott og farsælt samstarf við aðra eigendur og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar.
Spurður um þau tækifæri sem FISK sjái í Vinnslustöðinni segir Jón að horft sé á uppsjávargeirann.
„FISK hefur lengi haft áhuga á að tengjast með eignarlegum hætti fyrirtæki sem er í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski,“ segir hann.
„Við náum því með þessum kaupum, en ekki síður finnst okkur þetta spennandi fyrirtæki til að eiga í, og við teljum að til staðar séu ýmsir möguleikar á samvinnu þessara tveggja sjávarútvegsfyrirtækja.“