Athugasemdir hafa verið gerðar við frummat Samkeppniseftirlitsins á máli sem tengist breytingum á yfirráðum í HB Granda. Greint var frá því í morgun að eftirlitið teldi að um væri að ræða „alvarleg brot“ á samkeppnislögum ef frummatið væri á rökum reist. Greindi Fréttablaðið frá málinu í morgun.
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist að viðskiptum Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims og HB Granda, en Brim sem er í hans eigu, keypti stóran hlut í HB Granda í vor. Tók hann við sem forstjóri HB Granda í júní, en á sama tíma var hann eigandi um þriðjungshlutar í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Þann hlut seldi Guðmundur hins vegar í gær til FISK seafood.
Í frummatinu er sagt að það kunni að leiða til brota á samkeppnislögum að aðaleigandi Brims sé forstjóri HB Granda. Þá geti það einnig leitt til brota að hann hafi sem aðaleigandi Brims einnig setið í stjórn Vinnslustöðvarinnar. Það sé varhugavert í samkeppnislegu tilliti að sami aðili og eigi allt hlutafé í einu félagi, sé á sama tíma forstjóri félags á sama markaði og stjórnarmaður í því þriðja.
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu vegna fréttaflutnings af málinu segir að rétt sé að taka fram að endanleg niðurstaða í málinu liggi ekki fyrir. Frummatið hafi verið sett fram til að gefa hluteigandi aðilum tækifæri til þess að bregðast við og koma skýringum og sjónarmiðum á framfæri. Frummatið geti breyst í samræmi við þær athugasemdir. „Aðilar málsins hafa nú komið á framfæri skýringum og sjónarmiðum vegna málsins, þ.á.m þess efnis að Guðmundur var genginn úr stjórn Vinnslustöðvarinnar þegar athugun Samkeppniseftirlitsins hófst,” segir meðal annars í tilkynningunni.