Bendir á tengsl Fréttablaðsins og VSV

Guðmundur segist hafa fengið upplýsingar frá SE í júlí um …
Guðmundur segist hafa fengið upplýsingar frá SE í júlí um að kaupin væru til athugunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn­ar­formaður Frétta­blaðsins er einnig lögmaður meiri­hluta­eig­enda Vinnslu­stöðvar­inn­ar í Vest­manna­eyj­um hf. og sömu­leiðis vara­formaður stjórn­ar fyr­ir­tæk­is­ins. Þetta seg­ir Guðmund­ur Kristjáns­son, for­stjóri HB Granda og eig­andi Brims.

Í til­kynn­ingu frá Guðmundi, sem send er út í til­efni frétt­ar Frétta­blaðsins um at­hug­un Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins á kaup­um Brims hf. á hluta­bréf­um í HB Granda hf., seg­ir hann að eft­ir­litið hafi haft kaup­in í at­hug­un og hafi sent fé­lög­un­um er­indi þess efn­is í júlí.

„Þar kem­ur fram að Sam­keppnis­eft­ir­litið skoðar fjög­ur atriði. Í fyrsta lagi hvort til­kynn­ing­ar­skyld­ur samruni hafi átt sér stað þegar Brim hf. eignaðist þann 4. maí 34% hlut í HB Granda. Það er enn í skoðun,“ seg­ir í til­kynn­ingu Guðmund­ar.

„Í öðru lagi hvort það stand­ist 10. gr. sam­keppn­islaga að aðal­eig­andi Brims hf. sé for­stjóri HB Granda. Það er enn í skoðun.

Í þriðja lagi hvort stjórn­ar­seta aðal­eig­anda Brims hf. í stjórn Vinnslu­stöðvar­inn­ar brjóti gegn 10. gr. sam­keppn­islaga. Það er rangt að Guðmund­ur Kristjáns­son hafi í vor verið í stjórn Vinnslu­stöðvar­inn­ar og þarfn­ast því ekki frek­ari skoðunar.“

Bent er á að í fjórða lagi sé at­hugað hvort til­kynn­inga­skyld­ur samruni hafi átt sér stað þegar Brim hf. keypti allt hluta­fé í Ögur­vík árið 2016.

„Sam­skipti áttu sér stað við Sam­keppnis­eft­ir­litið á þeim tíma og var það sam­eig­in­leg niðurstaða þá að þessi viðskipti væru ekki til­kynn­ing­ar­skyld og er það atriði ekki leng­ur til skoðunar. Mál þetta var til um­fjöll­un­ar í fjöl­miðlum í byrj­un júlí á þessu ári og þá sagði Guðmund­ur í viðtali við Morg­un­blaðið að eðli­legt væri að eft­ir­lits­stofn­an­ir væru að fylgj­ast með viðskipta­líf­inu og er hann enn þeirr­ar skoðunar,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Að lok­um seg­ir að vegna um­ræddr­ar forsíðufrétt­ar Frétta­blaðsins megi geta þess, að stjórn­ar­formaður Frétta­blaðsins sé einnig lögmaður meiri­hluta­eig­enda Vinnslu­stöðvar­inn­ar í Vest­manna­eyj­um hf. og vara­formaður stjórn­ar fyr­ir­tæk­is­ins, en maður­inn sem um ræðir er Ein­ar Þór Sverr­is­son.

mbl.is