Milda lýsingar vegna loftslagsbreytinga

Olíuborpallur á Mexíkóflóa. Dregið er úr „raunverulegri hættu“ hlýnunar jarðar …
Olíuborpallur á Mexíkóflóa. Dregið er úr „raunverulegri hættu“ hlýnunar jarðar í lokaútgáfu skýrslunnar til að sefa þær þjóðir sem eiga mikið undir notkun jarðefnaeldsneytis. AFP

Dregið er úr „raun­veru­legri hættu“ hlýn­un­ar jarðar í loka­út­gáfu alþjóðlegr­ar skýrslu um áhrif lofts­lags­breyt­inga og seg­ir dag­blaðið Guar­di­an það gert til að sefa þær þjóðir sem eiga mikið und­ir notk­un jarðefna­eldsneyt­is.

Að sögn rit­dóm­ara sem hafa séð fyrri út­gáf­ur skýrsl­unn­ar eru vís­inda­menn, sem vinna að loka­út­gáf­unni, nú að rit­skoða eig­in viðvar­an­ir til að skýrsl­an falli í betri jarðveg hjá þjóðum á borð við Banda­rík­in, Sádi-Ar­ab­íu og Ástr­al­íu sem hafa verið treg til að draga úr út­blástri vegna jarðefna­eldsneyt­is.

„Með því að draga úr verstu áhrif­um lofts­lags­breyt­inga und­an­skilja höf­und­ar skýrsl­unn­ar mik­il­væg­ar upp­lýs­ing­ar úr sam­an­tekt­inni fyr­ir lög­gjaf­ana,“ hef­ur Guar­di­an eft­ir Bob Ward, sem fer yfir stefnu­mót­un­ar­mál­um hjá Grant­ham-stofn­un­inni, sem sér­hæf­ir sig í  um­hverf­is- og lofts­lags­mál­um.

„Átti rík­is­stjórn­ir sig ekki á um­fangi vand­ans og hve bráður hann er þá kunna þær að van­meta hversu mik­il­vægt er að þær mæti mark­miðum Par­ís­arsátt­mál­ans um lofts­lags­breyt­ing­ar. Það get­ur svo haft al­var­leg áhrif á bar­átt­una gegn hnatt­rænni hlýn­un.“

Ekki minnst á hættu golf­straums­ins eða Græn­lands­jök­ul

Skýrsl­an er unn­in af IPPC (In­tergo­vern­mental Panel on Clima­te Change), alþjóðlegri stjórn um lofts­lags­breyt­ing­ar, að beiðni lög­gjafa í kjöl­far Par­ísa­fund­ar Sam­einuð þjóðanna í des­em­ber 2015. Þar samþykktu þjóðir heims að reyna að halda hlýn­un jarðar inn­an við 2°.

Til stend­ur að kynna skýrsl­una á fundi í Suður-Kór­eu í byrj­un októ­ber og þar kem­ur fram að það muni hafa hrika­leg­ar af­leiðing­ar verði hlýn­un jarðar meiri en 2°. Yf­ir­borð sjáv­ar muni í kjöl­farið hækka og eyðimerk­ur­svæði stækka, sem aft­ur hef­ur al­var­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir fjölda dýra­teg­unda og kjör­lendi þeirra. Jökl­ar muni enn frem­ur bráðna og hætt­an á öfl­ug­um felli­bylj­um og storm­um aukast.

Áhyggj­ur manna snúa hins veg­ar að sögn Guar­di­an að yf­ir­lit­inu sem lög­gjaf­ar fá af­hent, því það sé það skjal sem þeir muni nýta sér við breyt­ing­ar á lög­gjöf­um landa sinna. 

Meðal þeirra upp­lýs­inga sem hafa verið fjar­lægðar úr yf­ir­lit­inu er að minnst sé á hætt­una á aukn­um fólks­flutn­ing­um og átök­um fari hlýn­un jarðar fari yfir 1,5°.

Eins sé hvergi minnst á hætt­una sem Golf­straum­in­um stafi af köldu vatni sem ber­ist frá norður­skaut­inu með bráðnun jökla. Né held­ur sé varað við hætt­unni á því að Græn­lands­jök­ull hverfi verði hlýn­un jarðar meiri en 1,5-2° og að í kjöl­farið muni sjáv­ar­staða hækka um 1-2 metra á næstu tveim­ur öld­um.

Guar­di­an hef­ur eft­ir tals­manni IPPC, að yf­ir­litið eigi að vera í takt við niður­stöður skýrsl­unn­ar. „Þeir breyta kannski orðalagi til að út­skýra eitt­hvað bet­ur, eða bæta við texta sem ekki var í yf­ir­lit­inu til að byrja með,“ sagði hann og bætti við að jafn­vel þó að eitt­hvað sé fjar­lægt úr yf­ir­lit­inu þá verði það enn að finna í skýrsl­unni sjálfri.

mbl.is