Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá Jóni sem þráir að losna við ístruna.
Sæl, ég er miðaldra karl með ístru og náraspik sem mig langar að losna við. Ég er hvergi annars staðar með fitu á líkamanum. Þannig að mig langar að fara í fitusog, svo spurningin er hvað myndi það kosta?
Kær kveðja, Jón
Sæll og takk fyrir spurninguna.
Ég verð að byrja á því að hryggja þig á að segja þér að oftast liggur umframfita (ístra) hjá karlmönnum innan vöðvalaga og ekki framkvæmanlegt að fjarlægja hana með skurðaðgerð. Þú getur prófað að spenna magavöðvana og klípa þá í húðina. Ef þú finnur að fitulagið er þunnt undir húðinni þá liggur fitan á milli líffæra í kviðarholi. Innanfita er almennt séð óholl og breyting á mataræði (færri kaloríur) ásamt aukinni hreyfingu er lausnin. Ef fitan liggur milli vöðvalaga og húðar, gæti fitusog gagnast þér. Það er almennt framkvæmt í svæfingu á þessu svæði. Engin aðgerð er áhættulaus og síðan er nauðsynlegt að vera í þrýstingsfatnaði í 6 vikur eftir aðgerð.
Ég ráðlegg þér að panta þér tíma hjá lýtalækni og sjá hvað kemur til greina hjá þér.
Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.