Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur boðað til blaðamannafundar í dag klukkan 15.15, um nýtt frumvarp til laga um veiðigjald. Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að fundurinn muni fara fram á fyrstu hæð í húsakynnum ráðuneytisins að Skúlagötu 4.
Frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis, um endurútreikning veiðigjalda hjá litlum og meðalstórum útgerðum, varð ekki að lögum í vor eftir töluverðan vandræðagang á þinginu. Spurður, í samtali við 200 mílur í lok sumars, hvort frumvarpið yrði sett aftur á dagskrá í haust sagðist Kristján heldur ætla að leggja fram frumvarp að nýjum heildarlögum um veiðigjöld.
„Við smíðina á því frumvarpi hyggst ég meðal annars taka mið af þeim athugasemdum sem fram komu við frumvarp atvinnuveganefndar, og þeim sjónarmiðum sem þar komu fram. Vissulega voru það ákveðin vonbrigði að ná ekki samkomulagi um breytingar á veiðigjöldunum í vor, þar sem vísbendingar eru um það að kerfið í núverandi mynd endurspegli ekki nægilega vel afkomu greinarinnar,“ sagði Kristján í því viðtali.
„En það breytir því ekki að kerfið var sett á og við þurfum að vinna samkvæmt því þangað til því verður breytt. Markmið mitt er að frumvarpið sem fram kemur í haust taki á þeim ágöllum sem finna má í núverandi kerfi, og þá er stærsta atriðið í rauninni það að reyna að færa álagningu þessara gjalda sem næst okkur í tíma. Í því felst mesta áskorunin.“
Ráðherrann sagðist enn fremur finna fyrir ágætissátt í samfélaginu um að greidd skuli gjöld fyrir nýtingu auðlinda sem eru undir forræði ríkisins. „Átökin um veiðigjöldin hafa að mestu snúist um fyrirkomulag innheimtunnar, hvernig til þeirra er stofnað og svo fjárhæðirnar.“