Sér ýmislegt jákvætt við frumvarpið

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. mbl.is/Árni Sæberg

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir ýmsa jákvæða þætti í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ti laga um veiðigjald, sem lagt var fram í gær.

Meðal annars segist Jens Garðar ánægður með þá fyrirætlan að færa viðmiðunarár gjaldsins nær í tíma. „Við höfum oft bent á þá skekkju sem felst í því að borga gjald sem miðast við afkomu greinarinnar jafnvel tveimur árum áður,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Við höfum séð það núna hvað rekstrarskilyrði greinarinnar geta breyst stórkostlega á örskömmum tíma, bæði hvað varðar gengi, verð á erlendum mörkuðum eða kvóta, þannig að það er mjög hvimleitt að þurfa að greiða gjald sem er með viðmiðunarár svona langt aftur í tímann.“

Hann bætir við að svo séu aðrir þættir í frumvarpinu sem þurfi að reikna út hvaða áhrif muni hafa á greinina. SFS muni senda umsögn í kjölfarið.

mbl.is