Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, John Bolton, varar ráðamenn í Íran við því að þeirra bíði helvíti ef þeir skaði Bandaríkin, borgara þeirra eða bandamenn.
Bolton lét ummælin falla aðeins nokkrum klukkustundum eftir að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sakaði Íran um að bera ábyrgð á dauða og eyðingu víðs vegar um Mið-Austurlönd.
Forseti Íran, Hassan Rouhani, var fljótur að svara Trump með því að gagnrýna hann og saka Bandaríkjastjórn um fjandskap í garð Írana og vísaði þar til samkomulagsins sem gert var í forsetatíð Barack Obama en Trump hefur sagt Bandaríkin frá samkomulaginu.
Bolton segir að grimmdarstjórn íslamskra fræðimanna í Tehran eigi ekki von á góðu ef hún haldi áfram lygum, svikum og blekkingum.
Bolton, sem áður var sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, lét þessi ummæli falla á ráðstefnu um málefni Íran í New York í gær.