„Komið upp í vana að vaða í óvissu“

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er bara sá veruleiki sem við búum við, hvað loðnuna varðar. Það er komið upp í vana að vaða í óvissu þar, og það hefur sýnt sig í þessum leiðöngrum síðustu ár að það gengur illa að ná utan um loðnustofninn á þessum tíma.“

Þetta segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, þegar 200 mílur inna hann eftir viðbrögðum við þeim tíðindum frá Hafrannsóknastofnun, að ekki sé útlit fyrir að hægt verði að mæla með upphafsaflamarki fyrir loðnu á komandi vertíð.

Eft­ir loðnu­leiðang­ur síðasta hausts, til sam­an­b­urðar, lagði Hafró til að leyft yrði að veiða 208 þúsund tonn af loðnu á vertíðinni 2017/​2018. Ljóst er því að miklu munar fyrir þær útgerðir sem reiða sig á loðnuveiðar.

Leggja þarf meiri vinnu í rannsóknir

Spurður hvort hann eigi því von á að staðan skýrist betur eftir áramót segist Gunnþór ekki munu taka niðurstöður mælinganna bókstaflega.

„Ég held að þetta sýni enn og aftur fram á það sem við þegar vitum; það þarf að leggja mun meiri vinnu í að rannsaka loðnuna, vita hvar hún heldur sig og þekkja stofninn betur,“ segir hann og bendir á að niðurstöðurnar raski ekki dagskrá útgerðarinnar.

„Ég reikna með að þetta verði eins og síðustu ár; við skjótum upp rakettum á gamlárskvöld án þess að vita hvað er fyrir stafni á nýju ári. Það er ekkert nýtt í loðnunni.“

mbl.is