Stærsti greiðandi veiðigjalda á nýliðnu fiskveiðiári, HB Grandi, greiðir 1.038 milljónir króna til ríkisins. Næstur á eftir HB Granda kemur Samherji, sem greiðir 777 milljónir króna í veiðigjöld fyrir fiskveiðiárið. Þeir ellefu stærstu greiða um helming veiðigjaldanna.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirliti Fiskistofu yfir álagningu veiðigjalda, sem birt var í dag.
Meðfylgjandi yfirlit er gert upp úr gögnum Fiskistofu og má í því sjá stærstu 30 greiðendur veiðigjalda á liðnu fiskveiðiári. Fimm af þessum þrjátíu eru skráðir til húsa í Reykjavík, fjórir í Vestmannaeyjum, þrír á Akureyri og þrír í Grindavík.
Ljóst er að veiðigjöld íslenskra útgerða meira en tvöfaldast á milli fiskveiðiára, en þær greiða samtals rúmlega 11,2 milljarða fyrir nýliðið fiskveiðiár í samanburði við 4,6 milljarða á síðasta ári.
Samkvæmt útreikningum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er um að ræða 933 milljónir króna á mánuði, eða 31 milljón króna á hverjum einasta degi.