Íslenskar útgerðir greiða samtals rúmlega 11,2 milljarða króna í veiðigjöld fyrir fiskveiðiárið 2017/2018, sem lauk 31. ágúst. Veiðigjöldin meira en tvöfaldast á milli ára, en fiskveiðiárið 2016/2017 námu þau um 4,6 milljörðum króna.
Það var í síðasta sinn sem veittur var tímabundinn afsláttur af veiðigjaldi og nam hann þá um 927 milljónum króna.
Fiskistofa birtir álagningu veiðigjalda á vef sínum í dag en þar má sjá að greiðendur eru 959 talsins. Ellefu stærstu greiðendurnir greiða um helming veiðigjaldanna en sá stærsti, HB Grandi, greiðir rúman milljarð króna.
Aðeins einu sinni áður hafa verið innheimt hærri veiðigjöld en nú, en álögð veiðigjöld fiskveiðiárið 2012/2013 námu alls 12,8 milljörðum. Veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2015/16 námu alls 6,9 milljörðum. Veiðigjöld fiskveiðiárið 2014/15 voru 7,7 milljarðar og 9,2 milljarðar fiskveiðiárið 2013/2014.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti undir lok septembermánaðar nýtt frumvarp um veiðigjöld sem hann hefur lagt fram á Alþingi. „Þetta er miklu einfaldara og auðskiljalegra. Við erum að einfalda stjórnsýsluna og færa álagningu veiðigjalds nær í tíma,“ sagði hann þá í samtali við 200 mílur.
Gildandi lög um veiðigjöld renna út um áramótin og þarf nýtt frumvarp því að taka gildi 1. janúar 2019. Kristján Þór er bjartsýnn á að sátt verði um regluverkið sjálft en á von á því að skiptar skoðanir verði um upphæð gjaldsins. „Ég vonast eftir því að við getum náð ágætlega saman um það hvernig við ætlum að reikna gjaldið út, sem ég held að þetta frumvarp gefi alveg fullt færi til. Svo getum við og munum örugglega hafa eðlilega skiptar skoðanir um þá fjárhæð sem atvinnugreininni er ætlað að greiða af fiskveiðaauðlindinni.“