Alþjóðadómstóllinn (ICJ), sem er æðsti dómstóll Sameinuðu þjóðanna, hefur fyrirskipað Bandaríkjunum að draga úr refsiaðgerðum sem þarlend stjórnvöld settu á Íran í maí, að því er BBC greinir frá.
Bandarísk stjórnvöld sögðu sig frá alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi við Íran í vor og í ágúst tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti að hann muni fylgja refsiaðgerðum gegn Íran eftir af fullri hörku.
Úrskurðaði dómstóllinn í dag að bandarísk yfirvöld verði að fjarlægja „allar hindranir“ á flutningi mannúðargagna til Íran, m.a. á flutningi matvæla, lyfja og öryggisbúnaðar fyrir flugvélar.
Bandarísk stjórnvöld fullyrða hins vegar að úrskurðurinn sé „ósigur“ fyrir Íran, þar sem þau heimili nú þegar flutning gagna í mannúðarskyni.
Úrskurðir Alþjóðadómstólsins eru bindandi, en dómstóllinn hefur enga möguleika á að fylgja þeim eftir.