Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði í dag frá beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurða nefndarinnar í málum þar sem felld voru úr gildi rekstarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctis Sea Farm vegna laxeldis í sjókvíum á Patreksfirði og Tálknafirði og starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitti sömu fyrirtækjum.
Fram kemur í úrskurðinum að heimild úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða er hvorki að finna í stjórnsýslulögum né sérlögum um úrskurðarnefndina.
Í úrskurðinum segir að vafi leiki á heimildum úrskurðarnefnda til slíkrar frestunar. Bent er á að ráðherra sem fer með yfirstjórn málaflokka hafi heimild til frestunar réttaráhrifa ákvarðana sinna og úrskurða, að öðrum skilyrðum uppfylltum.