Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir karlmanni á þrítugsaldri sem fundinn hefur verið sekur um að nauðga ölvaðri konu í júní 2015. Var hann dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi, en í héraði hafði hann verið dæmdur í eins árs fangelsi. Þá hækkaði Landsréttur bætur til handa konunni úr einni milljón í 1,2 milljónir.
Fram kemur í dómi Landsréttar að brot mannsins, Fjölnis Guðsteinssonar, hafi verið til þess fallin að valda konunni miklum miska. Þá liggi fyrir gögn um andlegar afleiðingar hennar vegna brota hans og eru miskabæturnar þess vegna hækkaðar.
Konan sagðist hafa sofnað alklædd í rúmi á heimili Fjölnis, eftir að hafa verið að skemmta sér og vaknað við sársauka og áttað sig á því að hann væri að reyna að hafa við hana mök um endaþarm hennar. Önnur kona hafði einnig lagst í rúmið og bar fyrir dómi að sést hafi á konunni að mökin væru ekki með vilja hennar.
Fjölnir bar fyrir dómi að samfarirnar hefðu verið með vilja konunnar og að hún hafi tekið fullan þátt í þeim. Hann hafi ekki ætlað að eiga við hana mök um endaþarm heldur hafi hann óvart farið þangað. Konan hafi þá virst fá bakþanka og farið fram ásamt hinni konunni. Hann hafi við það sofnað. Hann var síðar vakinn af lögreglu og handtekinn.
Fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms að vitni hafi borið að Fjölnir hafi lagst upp í rúm hjá konunni þar sem hún hafi legið sofandi. Telur dómurinn framburði konunnar og vitnisins, hinnar konunnar, vera trúverðuga og þar með framburð Fjölnis í ósamræmi við þá.
„Þrátt fyrir að hugsanlegt sé að einhver kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað milli ákærða og brotaþola fyrr um kvöldið þegar þau voru nýkomin heim til ákærða ber að hafa í huga að ákærði fer upp í rúm til sofandi konu í þeim tilgangi að eiga við hana mök,“ segir enn fremur í dómnum. Ekkert bendi til þess að konan hafi veitt samþykki sitt fyrir því.
„Þá er ljóst af framangreindum framburði vitna um ástand brotaþola skömmu eftir atvikið að brotaþoli hefur orðið fyrir miklu áfalli. Þegar allt framanritað er virt þykir ekki varhugavert að telja nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.“