Vilja veðurupplýsingar af hafinu

Hitastig sjávar ræður miklu um veðráttu, segir Árni Snorrason forstjóri …
Hitastig sjávar ræður miklu um veðráttu, segir Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vegna hlýnunar í hafi og andrúmi hefur verið minna um hafís við austurströnd Grænlands á undanförnum árum svo borgarísjaka úr jöklum rekur nú greiðar en áður á haf út og með vestlægum áttum að Íslandsströndum. Þetta segir Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands.

Undanfarið hafa reglulega borist fréttir af borgarísjökum fyrir norðan land, klumpum sem hafa verið sjaldséðir hér við land í seinni tíð. Í þessu sambandi minnir Árni Snorrason á að borgarís hafi um allar aldir leitað óreglulega að Íslandsströndum. Á síðustu tuttugu árum eða svo hafi skriðhraði jökla á Grænlandi hins vegar aukist sem hafi leitt af sér meiri kelfingu.

Hafísbreiða út af Vestfjörðum.
Hafísbreiða út af Vestfjörðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Brýnt er að efla veðurathuganir og rannsóknir á veðráttu á norðurslóðum; bæði vegna loftslagsbreytinganna og eins siglinga. Skemmtiferðaskip fara oft að austurströnd Grænlands og norður að Svalbarða, en öryggisatriði vegna þeirra siglinga hafa verið í skoðun að undanförnu. Reyndar er alltaf mjög eftirsóknarvert að fá betri veðurgögn frá skipum á hafi úti. Við höfum að undanförnu vakið máls á því við útgerðarfélög og óskað samstarfs. Þannig sjáum við fyrir okkur að koma mætti mælitækjum fyrir um borð í skipum og bátum, hvort heldur sem þau eru á grunnslóð eða lengra úti,“ segir Árni og heldur áfram:

Gögn eru gull

Borgarísjaki í minni Eyjafjarðar fyrir nokkrum dögum.
Borgarísjaki í minni Eyjafjarðar fyrir nokkrum dögum. Ljósm/Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

„Fyrir vísindin eru veðurgögn utan af hafi algjört gull, svo miklu ræður hitastig sjávar alltaf um veðráttu. Svör við mörgum spurningum veðurfræðinnar er að finna í hafinu. Auknum fjármunum sem við fáum til rannsóknarstarfs, til dæmis í gegnum alþjóðlegt samstarf, munum við verja til að fylgjast með veðráttu úti á sjó.”

 

mbl.is