„Ekki valkostur að bregðast ekki við“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir íslensk stjórnvöld taka …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir íslensk stjórnvöld taka skýrslu IPCC alvarlega. mbl.is/Hari

„Það er al­veg ljóst að við tök­um þessa skýrslu mjög al­var­lega  eins og aðrar skýrsl­ur alþjóðasam­fé­lags­ins sem komið hafa fram og nýt­um okk­ur þær í okk­ar stefnu­mót­un og aðgerðum,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra í sam­tali við mbl.is.

Greint var í morg­un frá því að í nýrri skýrslu lofts­lags­ráðs Sam­einuðu þjóðanna, IPCC, að stefni í 3° hlýn­un jarðar miðað við nú­ver­andi þróun. Skýrsl­an sé lokaviðvör­un vís­inda­manna. Eigi að tak­ast að halda hlýn­un jarðar und­ir 1,5° sé þörf á „hröðum, víðtæk­um og for­dæm­is­laus­um breyt­ing­um á öll­um hliðum þjóðfé­lags­ins.“ Slík­ar aðgerðir verði veru­lega kostnaðarsam­ar, en dýr­keypt­ara verði að gera ekki neitt.

Guðmund­ur Ingi seg­ir skýrsl­una, líkt og fjölda annarra skýrslna sem gefn­ar hafa verið út á síðustu árum, staðfesta að lofts­lags­mál­in eru stærsta verk­efni mann­kyns á 21. öld­inni.

„Íslensk stjórn­völd munu að sjálf­sögðu líta til þess­ar­ar skýrslu eins og annarra gagna í sinni vinnu,“ seg­ir hann.

Íslensk­ir vís­inda­menn framar­lega í bind­ingu kolt­ví­sýr­ings

Kynnt var í síðasta mánuði aðgerðaáætl­un ís­lenskra stjórn­valda, þar sem gert er ráð fyr­ir að 6,8 millj­örðum verði varið til sér­stakra aðgerða í lofts­lags­mál­um á næstu fimm árum.

Guðmund­ur Ingi  er ekki kom­inn með skýrslu IPCC í hend­ur, en seg­ist vera bú­inn að kynna sér meg­in­drætti henn­ar. Hann seg­ir at­hygl­is­vert að marg­ar þeirra aðgerða sem IPCC leggi til séu þær sömu og ís­lensk stjórn­völd hafi þegar kynnt í aðgerðaáætl­un sinni.

„Þar vil ég sér­stak­lega nefna orku­kerf­in,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi. „Við erum með metnaðarfull mark­mið um að breyta úr notk­un meng­andi inn­flutts jarðefna­eldsneyt­is yfir í inn­lenda orku. Það rím­ar mjög vel við áhersl­urn­ar sem þarna eru sett­ar. Síðan má líka nefna kol­efn­is­bind­ingu.“

Í aðgerðaáætl­un ís­lenskra stjórn­valda sé m.a. fjallað sér­stak­lega um skóg­rækt, land­græðslu og end­ur­heimt vot­lend­is. „Þetta er allt í góðu sam­ræmi við það sem þarna er lagt til að þurfi að gera.  Eins líka lagt til í skýrsl­unni að kolt­ví­sýr­ing­ur sé dreg­inn beint úr and­rúms­loft­inu með tækni­leg­um aðferðum, öðrum en að binda hann með gróðri og jarðvegi. Það er áhuga­vert að ís­lensk­ir vís­inda­menn hafa verið framar­lega í slík­um aðgerðum, eins og uppi á Hell­is­heiði.“

Hellisheiðarvirkjun. Lagt er til í skýrslunni að koltvísýringur sé dreginn …
Hell­is­heiðar­virkj­un. Lagt er til í skýrsl­unni að kolt­ví­sýr­ing­ur sé dreg­inn beint úr and­rúms­loft­inu með tækni­leg­um aðferðum og dælt niður í jörðina. Íslensk­ir vís­inda­menn hafa gert til­raun­ir með þetta á Hell­is­heiði. mbl.is/​Golli

Þá stefni ís­lensk stjórn­völd að kol­efn­is­lausu Íslandi árið 2040, tíu árum fyrr en skýrslu­höf­und­ar telji nauðsyn­legt, eigi mark­miðið um að hlýn­un jarðar fari ekki yfir 1,5° að nást.

2,5% af vergri hnatt­rænni fram­leiðslu næstu tvo ára­tug­ina

Í skýrslu IPCC seg­ir að veru­legra fjár­fest­inga sé þörf eigi tak­ast að halda hlýn­un jarðar und­ir 1,5°. Kostnaður­inn jafn­gildi um 2,5% af vergri hnatt­rænni fram­leiðslu næstu tvo ára­tug­ina. Jafn­vel með þeirri fjár­fest­ingu þurfi einnig við véla, trjáa og gróðurs til að binda kolt­ví­sýr­ing úr and­rúms­loft­inu svo hægt sé að fanga hann og vista neðanj­arðar það sem eft­ir er.

Spurður hvort ís­lensk stjórn­völd séu að gera nóg svar­ar Guðmund­ur Ingi: „Eins og fram kem­ur hjá skýrslu­höf­und­um þá munu aðgerðir í þessa veru kosta bæði fjár­magn og tíma, en það mun kosta enn þá meira að bregðast ekki við. Meg­in­skila­boð skýrsl­unn­ar eru að það er ekki val­kost­ur að bregðast ekki við þessu.“

Íslensk stjórn­völd hafi í fjár­mála­áætl­un sinni til næstu fimm ára eyrna­merkt tæpa 7 millj­arða í lofts­lags­mál­in. „Við höf­um aldrei séð jafn­mikla fjár­muni fara þangað inn,“ seg­ir Guðmund­ur Ingi.

Eins beri að nefna að ýms­ar aðgerðir í lofts­lags­mál­um hafi líka efna­hags­leg­an ávinn­ing í för með sér. Þannig sé það til að mynda með raf­bíla­væðing­una. Þeir séu ódýr­ari í rekstri fyr­ir hinn al­menna neyt­anda. „Þannig hef­ur raf­bíla­væðing skýr­an efna­hags­leg­an ávinn­ing í för með sér. Við verðum líka minna háð inn­flutn­ingi á eldsneyti, sem líka ætti að gera viðskipta­jöfnuðinn okk­ur hag­felld­ari. Það er því ekki svo að all­ar aðgerðir í lofts­lags­mál­um komi út í fjár­hags­leg­um mín­us held­ur er líka hreinn ábati af þeim í sum­um til­fell­um.“

Ger­ir ráð fyr­ir að lofts­lags­ráð líti til skýrsl­unn­ar

Guðmund­ur Ingi seg­ir sum­ar þeirra aðgerða sem fjallað er um í aðgerðaáætl­un ís­lenskra stjórn­valda þegar vera komn­ar í gang. „Í öðrum er verið að vinna og svo eru ein­hverj­ar sem eru al­veg á byrj­un­ar­reit.“

Við end­ur­skoðun áætl­un­ar­inn­ar, sem verður í gangi fram til árs­ins 2019, verður að hans sögn horft til skýrslu IPCC, sem og annarra gagna. „Ég vil líka nefna að við sett­um lofts­lags­ráð á fót í júní og því er ætlað að rýna aðgerðir og aðgerðaáætl­un stjórn­valda og ég geri ráð fyr­ir að þau líti líka til þess­ar­ar skýrslu. Það er al­veg ljóst að við tök­um þessa skýrslu mjög al­var­lega eins og aðrar skýrsl­ur alþjóðasam­fé­lags­ins sem komið hafa fram og nýt­um okk­ur það í okk­ar stefnu­mót­un og aðgerðum.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina