Hafinu stafar hætta af hlýnun jarðar

Lífríki hafsins stafar ógn af hlýnun og súrnun sjávar. Það …
Lífríki hafsins stafar ógn af hlýnun og súrnun sjávar. Það vitum við, þrátt fyrir að rannsóknir á áhrifum súrnunar séu skammt á veg komnar. mbl.is/Styrmir Kári

Nú­ver­andi skuld­bind­ing­ar þjóða heims í lofts­lags­mál­um nægja ekki til þess að draga úr al­var­leg­um af­leiðing­um sem hljót­ast munu af hlýn­un and­rúms­lofts­ins, hafs­ins og súrn­un sjáv­ar, seg­ir breski vist­fræðing­ur­inn dr. Carol Turley í sam­tali við mbl.is.

Hún hélt í dag er­indi um súrn­un sjáv­ar í húsa­kynn­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar og dró upp dökka mynd af því hvernig hlýn­un og súrn­un sjáv­ar, verði ekki gripið í taum­ana, geti ógnað líf­ríki hafs­ins með ófyr­ir­séðum af­leiðing­um.

Sjór­inn súrn­ar vegna efna­breyt­inga sem verða í haf­inu þegar kol­díoxíð úr and­rúms­loft­inu berst í hafið og eru rann­sókn­ir á áhrif­um þessa til­tölu­lega skammt á veg komn­ar. Þó hef­ur verið sýnt fram á að áhrif súrn­un­ar í haf­inu hafi þegar haft slæm­ar af­leiðing­ar, til dæm­is fyr­ir kór­alrif og lin­dýr á borð við sam­lok­ur og snigla sem eru með kalk­skel, en súrn­un sjáv­ar hef­ur þegar dregið úr kalk­mett­un í haf­inu.

Þess­um áhrif­um er lýst í skýr­ing­ar­mynd­band­inu hér að neðan.

„Ég tel að hver ein­asta þjóð og hver ein­asta mann­eskja á jörðinni ætti að hafa áhyggj­ur af áhrif­um lofts­lags­breyt­inga og súrn­un­ar sjáv­ar,“ seg­ir Turley, sem tek­ur nú þátt í því að skrifa sér­staka skýrslu um hafið fyr­ir lofts­lags­ráð Sam­einuðu þjóðanna, IPCC.

„Við erum öll hluti af al­heims­kerf­inu og það þurfa all­ir að leggj­ast á eitt, hvert ein­asta land og hver ein­asta mann­eskja, til þess að koma í veg fyr­ir hörm­ung­ar,“ seg­ir Turley.

Súrn­un sjáv­ar ger­ist hraðar í köld­um sjó en heit­um og því sagði Turley að það væri sér­lega mik­il­vægt fyr­ir Íslend­inga, í ljósi þess hve háð við erum nýt­ingu fiski­stofn­anna und­an strönd­um lands­ins, að fylgj­ast vel með og taka stöðuna al­var­lega.

Dr. Carol Turley segir að grípa þurfi til aðgerða og …
Dr. Carol Turley seg­ir að grípa þurfi til aðgerða og að nú­ver­andi skuld­bind­ing­ar ríkja muni ekki koma í veg fyr­ir al­var­leg­ar af­leiðing­ar af hlýn­un jarðar og súrn­un sjáv­ar. mbl.is/​Hari

Turley seg­ir að ef við vilj­um að lífið á jörðinni haldi áfram á þann veg sem við erum vön, verðum við að ráðast í að breyta orku­kerf­um, sam­göngu­kerf­um og mat­væla­fram­leiðslunni sem allra fyrst.

„Við þurf­um í raun að grípa til aðgerða núna. Við höf­um 10-12 ár, rúm­an ára­tug, til þess að breyta því hvernig við lif­um og koma í veg fyr­ir gríðarleg­ar af­leiðing­ar sem hlýn­un jarðar og súrn­un sjáv­ar mun hafa. Núna er tæki­færið og við verðum að grípa það,“ seg­ir Turley.

Enn margt óvitað um súrn­un sjáv­ar

Haf­rann­sókna­stofn­un hef­ur fylgst með magni kol­díoxíðs í haf­inu í kring­um Ísland allt frá ár­inu 1983. Sam­fara þeim rann­sókn­um hóf stofn­un­in svo síðar að rann­saka sýru­stig sjáv­ar og hafa þau gögn, bæði héðan og ann­ars staðar frá í heim­in­um, verið „af­skap­lega mik­il­væg“ til að sýna fram á það að súrn­un sjáv­ar væri að eiga sér stað í raun og veru, að sögn dr. Hrann­ar Eg­ils­dótt­ur, sjáv­ar­vist­fræðings hjá Haf­rann­sókna­stofn­un.

„Í raun­inni var það ekki fyrr en þess­ar tímaseríu­stöðvar höfðu verið í gangi í nokk­urn tíma, tíu ár, sem vís­inda­sam­fé­lagið fór að sjá að sjór­inn væri raun­veru­lega að súrna í yf­ir­borðinu og sér­stak­lega hérna við Ísland af því að sjór­inn er svo kald­ur,“ seg­ir Hrönn í sam­tali við blaðamann.

Rann­sókn­ir á súrn­un sjáv­ar eru þó skammt á veg komn­ar, að sögn Hrann­ar, enda hóf­ust þær ekki að ráði fyrr en upp úr alda­mót­um. 

Dr. Hrönn Egilsdóttir fjallaði stuttlega um rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á hafinu …
Dr. Hrönn Eg­ils­dótt­ir fjallaði stutt­lega um rann­sókn­ir Haf­rann­sókna­stofn­un­ar á haf­inu um­hverf­is Ísland á fund­in­um í dag. mbl.is/​Hari

„Vís­inda­sam­fé­lagið fer af stað upp úr ár­inu 2000 og byrj­ar að rann­saka áhrif súrn­un­ar sjáv­ar. Áhrif hita­stigs hafa verið rann­sökuð miklu miklu leng­ur og eru að vissu leyti ein­fald­ari og af þeim sök­um vit­um við miklu meira um hvað ger­ist þegar hlýn­ar, en tals­vert lítið um hvað ger­ist þegar súrn­ar,“ seg­ir Hrönn, en þó er vitað að súrn­un­in hef­ur í för með sér flókn­ar breyt­ing­ar á haf­inu.

„Ef við horf­um bara á fiski­stofn­ana og spyrj­um spurn­ing­ar­inn­ar: „Hvernig munu fiski­stofn­arn­ir okk­ar, sér­stak­lega nytja­stofn­an­ir, verða fyr­ir áhrif­um af súrn­un sjáv­ar?“ þá get­um við í raun og veru engu svarað enn, því við vit­um ekki ná­kvæm­lega hvernig áhrif súrn­un­ar munu koma fram, en við vit­um að áhrif­in geta ekki verið já­kvæð, hvernig sem þau verða,“ seg­ir Hrönn.

Sem áður seg­ir byrjuðu ekki að birt­ast vís­inda­grein­ar um áhrif súrn­un­ar fyrr en eft­ir alda­mót og því eðli­legt að margt sé enn óvitað.

„Það tek­ur tíma að þróa svona rann­sókn­ir og besta þær þannig að þeir gefi okk­ur sem mest­ar og best­ar upp­lýs­ing­ar og það er fyrst núna síðustu árin sem við erum að sjá mjög háþróaðar og flott­ar rann­sókn­ir sem gefa okk­ur raun­veru­lega hug­mynd um hvað er að fara að ger­ast í framtíðinni. Þess­ar rann­sókn­ir geta sagt okk­ur ým­is­legt, til dæm­is það að áhrif af súrn­un sjáv­ar geta verið óvænt. Marg­ir héldu til dæm­is að fisk­ar væru gjör­sam­lega ónæm­ir fyr­ir súrn­un sjáv­ar upp­haf­lega, en það eru sum­ir fiski­stofn­ar sem eru það ekki,“ seg­ir Hrönn og nefn­ir til dæm­is að lirf­ur sumra fiski­stofna kom­ist síður á legg í súr­um sjó.

Erindi dr. Turley var vel sótt af sérfræðingum og áhugamönnum …
Er­indi dr. Turley var vel sótt af sér­fræðing­um og áhuga­mönn­um um lofts­lags­mál. mbl.is/​Hari

„Svo hef­ur verið sýnt fram á að heyrn og lykt­ar­skyn geta orðið fyr­ir áhrif­um af súrn­un sjáv­ar, en þetta er ekki al­gilt. Sum­ir fisk­ar virðast ekki vera mjög viðkvæm­ir, aðrir virðast vera það, en það er mjög lítið af rann­sókn­um búið að gera nú þegar. Við höf­um ein­hverja hug­mynd um að áhrif­in gætu orðið ein­hver, en hver þau verða ná­kvæm­lega og á hvaða fiski­stofna, við höf­um ekki hug­mynd um það,“ seg­ir Hrönn.

All­ir að taka við sér

Turley lagði áherslu á að að grípa þyrfti til aðgerða sem allra fyrst og minnka los­un kol­díoxíðs af manna­völd­um. En hvernig geng­ur vís­inda­mönn­um, eins og Hrönn, að sann­færa stjórn­völd um nauðsyn þess að grípa til aðgerða?

„Ég myndi segja að það gangi upp og ofan. Á ein­um tíma eru ákveðin stjórn­völd og svo breyt­ast stjórn­völd með tím­an­um eft­ir því sem kosn­ing­ar verða og svo fram­veg­is og kannski erfitt að halda lang­tíma­da­mpi, en hins veg­ar hef­ur maður verið að sjá það að ekki ein­ung­is hafa stjórn­völd verið að taka rosa­lega mikið við sér, held­ur líka iðnaður­inn,“ seg­ir Hrönn og bæt­ir við að til dæm­is hafi sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki verið að kalla eft­ir meiri upp­lýs­ing­um um ástand sjáv­ar.

„Það þarf að vera meiri þekk­ing á því sem er að ger­ast og það er ekki al­veg nógu mik­il þekk­ing nú þegar, en hins veg­ar eru all­ir að róa í sömu átt og það vant­ar bara svona herslumun­inn,“ seg­ir Hrönn.

„Það er erfitt að standa í svona rann­sókn­um af því að þær eru oft dýr­ar og það út­skýr­ir líka af hverju við vit­um svona lítið, því það er ekki búið að vera mikið fjár­magn í svona rann­sókn­ir.“

mbl.is