Kaup HB Granda á Ögurvík verði skoðuð

Makríll dreginn um borð í Vigra, skip Ögurvíkur.
Makríll dreginn um borð í Vigra, skip Ögurvíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Líf­eyr­is­sjóður­inn Gildi vill að fyr­ir­tækjaráðgjöf Kviku banka verði feng­in til að meta fyr­ir­huguð kaup HB Granda á öllu hluta­fé Ögur­vík­ur, og skil­mála þeirra. Hef­ur líf­eyr­is­sjóður­inn gert til­lögu um að bók­un þessa efn­is verði tek­in til meðferðar á hlut­hafa­fundi HB Granda sem fram fer 16. októ­ber.

Fyr­ir fund­in­um ligg­ur þegar til­laga um að staðfesta ákvörðun stjórn­ar­inn­ar um kaup fé­lags­ins á öllu hluta­fé Ögur­vík­ur ehf. af Útgerðarfé­lagi Reykja­vík­ur, sem áður bar nafnið Brim.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Guðmund­ur Kristjáns­son, for­stjóri HB Granda, er aðal­eig­andi Útgerðarfé­lags Reykja­vík­ur. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Sé haf­in yfir all­an vafa

Seg­ir í grein­ar­gerð með til­lögu Gild­is að þar með liggi fyr­ir hlut­höf­um að leggja mat á og taka af­stöðu til þess hvort viðskipt­in séu hag­felld fyr­ir HB Granda. Til­lag­an sé þá meðal ann­ars lögð fram í ljósi þess að aðal­eig­andi selj­anda, Guðmund­ur Kristjáns­son, sé á sama tíma for­stjóri HB Granda og stærsti hlut­hafi fyr­ir­tæk­is­ins. Mark­mið til­lög­unn­ar sé því að tryggja að ákvörðun­ar­tak­an sé haf­in yfir all­an vafa.

Enn frem­ur kem­ur fram í grein­ar­gerðinni að fyr­ir liggi sér­fræðiskýrsla sem sé meðal ann­ars þeim ann­marka háð að ein­ung­is sé byggt á einni til­tek­inni matsaðferð, án þess að horft sé til annarra þátta sem kunni að skipta máli þegar viðskipt­in séu met­in á heild­stæðum grunni.

Stjórn HB Granda samþykkti 13. sept­em­ber samn­ing um kaup á öllu hluta­fé í  Ögur­vík, en samn­ing­ur­inn var gerður 7. sept­em­ber. Kaup­verðið er 12,3 millj­arðar króna og var í til­kynn­ingu þann dag sagt bygg­jast á niður­stöðum tveggja óháðra mats­manna. Ögur­vík ehf. ger­ir út Vigra RE-71, 2.157 tonna frysti­tog­ara sem var smíðaður árið 1992.

Afla­heim­ild­ir fé­lags­ins á fisk­veiðiár­inu sem hófst 1. sept­em­ber 2018 eru 7.680 tonn af botn­fiski og 1.663 tonn af mak­ríl, miðað við út­hlut­un árið 2018. Fé­lagið hef­ur rekið út­gerð frá Reykja­vík í meira en hálfa öld.

mbl.is