Kaup HB Granda á Ögurvík verði skoðuð

Makríll dreginn um borð í Vigra, skip Ögurvíkur.
Makríll dreginn um borð í Vigra, skip Ögurvíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Lífeyrissjóðurinn Gildi vill að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka verði fengin til að meta fyrirhuguð kaup HB Granda á öllu hlutafé Ögurvíkur, og skilmála þeirra. Hefur lífeyrissjóðurinn gert tillögu um að bókun þessa efnis verði tekin til meðferðar á hluthafafundi HB Granda sem fram fer 16. október.

Fyrir fundinum liggur þegar tillaga um að staðfesta ákvörðun stjórnarinnar um kaup félagsins á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf. af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem áður bar nafnið Brim.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sé hafin yfir allan vafa

Segir í greinargerð með tillögu Gildis að þar með liggi fyrir hluthöfum að leggja mat á og taka afstöðu til þess hvort viðskiptin séu hagfelld fyrir HB Granda. Tillagan sé þá meðal annars lögð fram í ljósi þess að aðaleigandi seljanda, Guðmundur Kristjánsson, sé á sama tíma forstjóri HB Granda og stærsti hluthafi fyrirtækisins. Markmið tillögunnar sé því að tryggja að ákvörðunartakan sé hafin yfir allan vafa.

Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að fyrir liggi sérfræðiskýrsla sem sé meðal annars þeim annmarka háð að einungis sé byggt á einni tiltekinni matsaðferð, án þess að horft sé til annarra þátta sem kunni að skipta máli þegar viðskiptin séu metin á heildstæðum grunni.

Stjórn HB Granda samþykkti 13. september samn­ing um kaup á öllu hluta­fé í  Ögur­vík, en samningurinn var gerður 7. sept­em­ber. Kaup­verðið er 12,3 millj­arðar króna og var í tilkynningu þann dag sagt bygg­jast á niður­stöðum tveggja óháðra mats­manna. Ögur­vík ehf. ger­ir út Vigra RE-71, 2.157 tonna frysti­tog­ara sem var smíðaður árið 1992.

Afla­heim­ild­ir fé­lags­ins á fisk­veiðiár­inu sem hófst 1. sept­em­ber 2018 eru 7.680 tonn af botn­fiski og 1.663 tonn af mak­ríl, miðað við út­hlut­un árið 2018. Fé­lagið hefur rekið út­gerð frá Reykja­vík í meira en hálfa öld.

mbl.is