Snýst ekki um afstöðuna til fiskeldis

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðmæl­end­ur mbl.is úr röðum þing­manna eru sam­mála um að ekki virðist mik­ill póli­tísk­ur ágrein­ing­ur um frum­varp Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, um breyt­ing­ar á lög­um um fisk­eldi með þeim hætti að ráðherra fái heim­ild til þess að veita tíma­bundið rekstr­ar­leyfi til bráðabirgða til fisk­eld­is við ákveðnar aðstæður.

Frum­varpið var kynnt þing­flokk­um stjórn­ar­flokk­anna, Sjálf­stæðis­flokks­ins, Fram­sókn­ar­flokks­ins og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, í gær eft­ir að það hafði verið lagt fyr­ir rík­is­stjórn­ina. Frum­varpið var síðan í kjöl­farið sent til þing­flokka stjórn­ar­and­stöðunn­ar en stefnt er að því að af­greiða málið sem fyrst í gegn­um þingið.

Snýst um að gætt verði meðal­hófs

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, þing­flokks­formaður VG, seg­ir að hún eigi von á því að málið verði tekið inn í þingið með af­brigðum. Rætt hafi verið um að það verði gert, en það þýðir að ekki þurfi að leggja frum­varpið fram með sól­ar­hrings­fyr­ir­vara. „Þannig að ég reikna með því að verði reynt að af­greiða þetta mál eins fljótt og vel og kost­ur er.“

Spurð um af­stöðu þing­flokks VG til frum­varps­ins seg­ir hún að það hafi verið af­greitt úr þing­flokkn­um í gær af þeim þing­mönn­um sem hafi getað mætt en þing­menn flokks­ins séu ekki all­ir á land­inu. Málið sner­ist fyrst og fremst um það hvernig standa eigi að af­greiðslu mála í stjórn­sýsl­unni en ekki um af­stöðuna til fisk­eld­is sem slíka.

Bjarkey seg­ir að þeir þing­menn sem mætt hafi á þing­flokks­fund­inn hafi verið sam­mála um mik­il­vægi þess að gætt væri meðal­hófs í stjórn­sýsl­unni. „Þegar þú ert að byggja hús til dæm­is þá færðu frest til þess að bregðast við. Það er mjög óeðli­legt að ekki fá­ist tæki­færi til þess að bregðast við svona aðstæðum held­ur sé bara tekið úr sam­bandi.“

Til­laga ráðherra það sem gera þarf

Sig­urður Páll Jóns­son, þingmaður Miðflokks­ins, tek­ur í hliðstæðan streng. Mik­il­vægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem skap­ast hafi á Vest­fjörðum vegna máls­ins. Sjálf­ur sé hann þeirr­ar skoðunar að til­laga ráðherra sé það sem gera þurfi við þess­ar aðstæður. Fyr­ir­tæk­in fái and­rými áður en lokað sé á starf­sem­ina. Málið sé mjög al­var­legt.

Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, þingmaður VG og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar, seg­ir að fund­ur nefnd­ar­inn­ar í morg­un, þar sem meðal ann­ars var fjallað um fisk­eldi, hafi fyrst og fremst verið upp­lýs­inga­fund­ur fyr­ir nefnd­ar­menn þar sem full­trú­ar Um­hverf­is­stofn­un­ar, Skipu­lags­stofn­un­ar og Mat­væla­stofn­un­ar hafi setið fyr­ir svör­um.

mbl.is