Viðmælendur mbl.is úr röðum þingmanna eru sammála um að ekki virðist mikill pólitískur ágreiningur um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingar á lögum um fiskeldi með þeim hætti að ráðherra fái heimild til þess að veita tímabundið rekstrarleyfi til bráðabirgða til fiskeldis við ákveðnar aðstæður.
Frumvarpið var kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, í gær eftir að það hafði verið lagt fyrir ríkisstjórnina. Frumvarpið var síðan í kjölfarið sent til þingflokka stjórnarandstöðunnar en stefnt er að því að afgreiða málið sem fyrst í gegnum þingið.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, segir að hún eigi von á því að málið verði tekið inn í þingið með afbrigðum. Rætt hafi verið um að það verði gert, en það þýðir að ekki þurfi að leggja frumvarpið fram með sólarhringsfyrirvara. „Þannig að ég reikna með því að verði reynt að afgreiða þetta mál eins fljótt og vel og kostur er.“
Spurð um afstöðu þingflokks VG til frumvarpsins segir hún að það hafi verið afgreitt úr þingflokknum í gær af þeim þingmönnum sem hafi getað mætt en þingmenn flokksins séu ekki allir á landinu. Málið snerist fyrst og fremst um það hvernig standa eigi að afgreiðslu mála í stjórnsýslunni en ekki um afstöðuna til fiskeldis sem slíka.
Bjarkey segir að þeir þingmenn sem mætt hafi á þingflokksfundinn hafi verið sammála um mikilvægi þess að gætt væri meðalhófs í stjórnsýslunni. „Þegar þú ert að byggja hús til dæmis þá færðu frest til þess að bregðast við. Það er mjög óeðlilegt að ekki fáist tækifæri til þess að bregðast við svona aðstæðum heldur sé bara tekið úr sambandi.“
Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tekur í hliðstæðan streng. Mikilvægt sé að bregðast við þeim aðstæðum sem skapast hafi á Vestfjörðum vegna málsins. Sjálfur sé hann þeirrar skoðunar að tillaga ráðherra sé það sem gera þurfi við þessar aðstæður. Fyrirtækin fái andrými áður en lokað sé á starfsemina. Málið sé mjög alvarlegt.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og formaður atvinnuveganefndar, segir að fundur nefndarinnar í morgun, þar sem meðal annars var fjallað um fiskeldi, hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundur fyrir nefndarmenn þar sem fulltrúar Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar og Matvælastofnunar hafi setið fyrir svörum.