Stjórn HB Granda ræðir bréfið frá ÚR

Flotinn í höfn. Stjórn HB Granda hafði áður samþykkt kaup­in …
Flotinn í höfn. Stjórn HB Granda hafði áður samþykkt kaup­in á Ögurvík. Ljósmynd/Þröstur Njálsson

Stjórn HB Granda mun koma sam­an til fund­ar á fimmtu­dag og ræða bréf fram­kvæmda­stjóra Útgerðarfé­lags Reykja­vík­ur, stærsta hlut­hafa HB Granda, til fyr­ir­tæk­is­ins, og um leið þá til­lögu sem þar kem­ur fram, um að hætta við viðskipt­in með alla hluti í Ögur­vík að sinni.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu sem HB Grandi hef­ur sent kaup­höll­inni.

Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur, sem áður hét Brim, keypti fyrr á þessu ári 34% hlut í HB Granda fyr­ir rúm­lega 21 millj­arð. Síðar var til­kynnt um þau áform HB Granda að kaupa Ögur­vík af ÚR, sem er eins og fyrr seg­ir stærsti eig­andi HB Granda. Eig­andi ÚR er Guðmund­ur Kristjáns­son, en hann er jafn­framt for­stjóri HB Granda. Kaup­verðið var 12,3 millj­arðar króna en það bygg­ðist á niður­stöðum tveggja óháðra mats­manna.

Fyrr í dag var greint frá því að Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur vilji ekki leng­ur selja Ögur­vík til HB Granda.

Stjórn HB Granda hafði áður samþykkt kaup­in á Ögur­vík, en líf­eyr­is­sjóður­inn Gildi, einn stærsti hlut­hafi HB Granda, lagði í gær fram til­lögu að bók­un fyr­ir hlut­hafa­fund fé­lags­ins sem hald­inn verður 16. októ­ber, um að fá fyr­ir­tækjaráðgjöf Kviku til að meta kaup­in og skil­mála þeirra.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi HB Granda.
Guðmund­ur Kristjáns­son, for­stjóri og stærsti eig­andi HB Granda. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Ekki hafi tek­ist að eyða öll­um efa­semd­um

Í bréfi sem Run­ólf­ur Viðar Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri ÚR, sendi til HB Granda og var birt á vef Kaup­hall­ar­inn­ar, kem­ur fram að ÚR telji að í ljósi reynslu, þekk­ing­ar og kunn­áttu af minni­hluta­vernd og deil­um við hlut­hafa sé rétt að hætta við viðskipt­in með Ögur­vík að þessu sinni. Seg­ir í bréf­inu að ljóst sé að ekki hafi tek­ist að eyða öll­um efa­semd­um um að viðskipt­in séu gerð á grund­velli arms­lengd­ar­sjón­ar­miða og að það sé ein­læg­ur vilji for­svars­manna ÚR að starfa í sátt, sam­lyndi og án átaka við aðra hlut­hafa fé­lags­ins.

„ÚR tel­ur það ekki skyn­sam­legt að knýja viðskipt­in í gegn á þess­um tíma­punkti gegn efa­semd­um (vilja) eins af stærri hlut­höf­um í HB Granda,“ seg­ir í bréf­inu.

Örlaga­rík­ur ágrein­ing­ur

Fyrr á þessu ári var kannaður grund­völl­ur fyr­ir því á vett­vangi HB Granda að kaupa Ögur­vík. Þá varð ekk­ert af kaup­un­um. Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins fyrr í haust var það mat stjórn­enda HB Granda á þeim tíma að verðmiði upp á ríf­lega 12 millj­arða væri of hár og gæti gert út­gerðarfé­lag­inu erfitt um vik að ná arðsem­is­mark­miðum sín­um.

Var það mat fé­lags­ins á þeim tíma að ekki væri hægt að rétt­læta kaup á Ögur­vík fyr­ir meira en 8 millj­arða króna. Það er 4,3 millj­örðum lægri fjár­hæð en síðar var ákveðið að kaupa fyr­ir­tækið á.

Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins hermdu þá einnig að ágrein­ing­ur um mögu­leg kaup á Ögur­vík fyrr á þessu ári hafi orðið til þess að Vil­hjálmi Vil­hjálms­syni, þáver­andi for­stjóra HB Granda, hafi verið sagt upp störf­um. Upp­sögn­in var kynnt op­in­ber­lega 21. júní. Sömu heim­ild­ir hermdu að sú at­b­urðarás hafi einnig birst í brott­hvarfi Rann­veig­ar Rist en hún sagði sig úr stjórn fé­lags­ins 27. júní.

mbl.is