ÚR vill hætta við söluna á Ögurvík

Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brims og stór hluthafi í HB Granda.
Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brims og stór hluthafi í HB Granda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur, sem áður hét Brim og er stærsti eig­andi í HB Granda, seg­ir það vilja sinn að ekki verði farið í viðskipti með sölu fé­lags­ins á út­gerðarfé­lag­inu Ögur­vík. Stjórn HB Granda hafði áður samþykkt kaup­in, en líf­eyr­is­sjóður­inn Gildi, sem er einn stærsti hlut­hafi HB Granda, hafði lagt fram bók­un fyr­ir hlut­hafa­fund fé­lags­ins sem hald­inn verður 16. októ­ber um að fá fyr­ir­tækjaráðgjöf Kviku til að meta kaup­in og skil­mála þeirra.

ÚR er eig­andi Ögur­vík­ur og fyrr á þessu ári keypti ÚR 34% hlut í HB Granda fyr­ir rúm­lega 21 millj­arð. Síðar var til­kynnt um áform HB Granda að kaupa Ögur­vík af ÚR, sem er eins og fyrr seg­ir stærsti eig­andi HB Granda. Eig­andi ÚR er Guðmund­ur Kristjáns­son, en hann er jafn­framt for­stjóri HB Granda. Kaup­verðið var 12,3 millj­arðar króna en það bygg­ðist á niður­stöðum tveggja óháðra mats­manna.

Í bréfi sem Run­ólf­ur Viðar Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri ÚR, sendi til HB Granda og var birt á vef Kaup­hall­ar­inn­ar, kem­ur fram að ÚR telji, í ljósi reynslu, þekk­ing­ar og kunn­áttu af minni­hluta­vernd og deil­um við hlut­hafa, að rétt sé að hætta við viðskipt­in með Ögur­vík að þessu sinni. Seg­ir í bréf­inu að ljóst sé að ekki hafi tek­ist að eyða öll­um efa­semd­um um að viðskipt­in séu gerð á grund­velli arms­lengd­ar­sjón­ar­miða og að það sé ein­læg­ur vilji for­svars­manna ÚR að starfa í sátt, sam­lyndi og án átaka við aðra hlut­hafa fé­lags­ins.

„ÚR tel­ur það ekki skyn­sam­legt að knýja viðskipt­in í gegn á þess­um tíma­punkti gegn efa­semd­um (vilja) eins af stærri hlut­höf­um í HB Granda,“ seg­ir í bréf­inu.

Ögur­vík ehf. ger­ir út Vigra RE 71 sem er 2.157 tonna frysti­tog­ari smíðaður árið 1992. Afla­heim­ild­ir fé­lags­ins á fisk­veiðiár­inu sem hófst 1. sept­em­ber 2018 eru 7.680 tonn af botn­fiski og 1.663 tonn af mak­ríl miðað við út­hlut­un árið 2018.

mbl.is