Stjórn HB Granda, sem hugðist funda síðastliðinn fimmtudag vegna bréfs frá framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Reykjavíkur, frestaði fundinum. Verður hann þess í stað haldinn í dag, samkvæmt tilkynningu sem HB Grandi hefur sent kauphöllinni.
Í bréfi framkvæmdastjóra ÚR, sem er stærsti hluthafi HB Granda, er lýst yfir vilja til að hætta við sölu alls hlutafjár í Ögurvík ehf. til HB Granda, sem fyrirhuguð var samkvæmt samningi sem undirritaður var 7. september. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Bréf framkvæmdastjórans kom í kjölfar þeirrar tillögu lífeyrissjóðsins Gildis, sem stórs hluthafa í HB Granda, að kaupin og skilmálar þeirra yrðu skoðuð nánar af óháðum aðila.