Málið gegn Hval fellt niður

„Það er ekki óeðlilegt að biðja um að mál sé …
„Það er ekki óeðlilegt að biðja um að mál sé fellt niður þegar búið er að ganga að öllum okkar kröfum,“ sagði Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mál Verka­lýðsfé­lags Akra­ness (VLFA) gegn Hval hf. fyr­ir Fé­lags­dómi var fellt niður að kröfu VLFA sem upp­haf­lega stefndi Hval hf. Máls­kostnaður féll niður. Þetta kem­ur fram í úr­sk­urði Fé­lags­dóms frá 8. októ­ber.

„Við það að fara í alla þessa veg­ferð og enda­laus­ar ávirðing­ar í fjöl­miðlum og draga svo málið til baka þá hlaupa þeir burtu. Formaður­inn er fyr­ir mér eins og físi­belg­ur sem blæs sig út og svo tæm­ist loftið úr hon­um og þá hleyp­ur hann burt með skottið á milli lapp­anna,“ sagði Kristján Lofts­son, fram­kvæmda­stjóri Hvals hf.

Málið reis í fram­haldi af deil­um verka­lýðsfé­lags­ins við Hval á liðnu sumri. Verka­lýðsfé­lagið stefndi Hval og krafðist þess í fyrsta lagi að viður­kennt yrði að gild­andi kjara­samn­ing­ur SGS og SA gilti um kjör starfs­manna við hval­vinnslu 2018. Í öðru lagi var þess kraf­ist að viður­kennt yrði að við störf hjá Hval hefði ekk­ert stétt­ar­fé­lag eða fé­lags­menn ann­ars stétt­ar­fé­lags for­gang til starfa um­fram Verka­lýðsfé­lag Akra­ness og fé­lags­menn þess. Einnig var þess kraf­ist að viður­kennt yrði að Hval­ur hefði í aðdrag­anda og við upp­haf hval­vertíðar 2018 brotið gegn lög­um um stétt­ar­fé­lög og vinnu­deil­ur með því að starfs­menn ættu aðeins sam­skipti við Stétt­ar­fé­lag Vest­ur­lands (SV) og með því að lýsa því yfir að Hval­ur myndi ein­ung­is greiða stétt­ar­fé­lags­gjöld til SV og setja það skil­yrði að starfs­menn Hvals skyldu ekki vera fé­lags­menn í verka­lýðsfé­lag­inu.

Þá var þess kraf­ist að Hval­ur yrði sektaður fyr­ir lög­brot. Einnig að viður­kennd yrði skaðabóta­skylda Hvals gagn­vart verka­lýðsfé­lag­inu vegna af­skipta af stétt­ar­fé­lagsaðild starfs­manna og að Hval yrði gert að greiða verka­lýðsfé­lag­inu máls­kostnað.

Ljós­lega eng­in viður­kenn­ing á mála­til­búnaði VLFA

Hval­ur hf. seg­ir í yf­ir­lýs­ingu að upp­haf­leg­ar dóm­kröf­ur Verka­lýðsfé­lags Akra­ness hafi lotið ann­ars veg­ar að því að „eng­inn sér­kjara­samn­ing­ur væri í gildi á milli Hvals og Stétt­ar­fé­lags Vest­ur­lands (SV) varðandi störf í Hval­f­irði, þ.ám. for­gangs­rétt­ur fé­lags­manna SV til vinnu, held­ur lytu ráðning­ar­sam­bönd­in al­menn­um kjara­samn­ingi SGS og SA. Hval­ur lýsti því yfir í grein­ar­gerð sinni fyr­ir dómi að eng­inn ágrein­ing­ur væri um þetta atriði að feng­inni form­legri af­stöðu SV til þess að eng­inn sér­kjara­samn­ing­ur við SV væri í gildi“.

Hval­ur seg­ir að breytt afstaða sín hafi helg­ast af af­stöðu SV en ekki mála­til­búnaði verka­lýðsfé­lags­ins. Þá hafi verka­lýðsfé­lagið leitað viður­kenn­ing­ar á því að Hval­ur hefði sett það sem skil­yrði við ráðningu að starfs­menn væru ekki í verka­lýðsfé­lag­inu og að Hval­ur yrði dæmd­ur til refs­ing­ar og skaðabóta vegna þess. Því hafi Hval­ur hafnað al­farið.

Und­ir rekstri máls­ins hafi verka­lýðsfé­lagið kraf­ist niður­fell­ing­ar máls­ins og þannig heykst á því að fá efn­is­dóm um kröf­ur sín­ar, aðrar en máls­kostnað. Þá seg­ir Hval­ur að í úr­sk­urði Fé­lags­dóms fel­ist ljós­lega eng­in viður­kenn­ing á mála­til­búnaði Verka­lýðsfé­lags Akra­ness varðandi meint af­skipti Hvals af stétt­ar­fé­lagsaðild starfs­manna.

VLFA enn í mála­ferl­um

„Það er ekki óeðli­legt að biðja um að mál sé fellt niður þegar búið er að ganga að öll­um okk­ar kröf­um,“ sagði Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness (VLFA).

„Við gát­um ekki haldið áfram þegar búið var að upp­fylla þrjár helstu kröf­ur okk­ar. Starfs­mönn­um Hvals var heim­ilað að vera í Verka­lýðsfé­lagi Akra­ness. Það var viður­kennt að kjara­samn­ing­ur Starfs­greina­sam­bands­ins gilti fyr­ir þessi störf og Hval­ur skilaði síðan fé­lags­gjöld­um af fé­lags­mönn­um sem vildu vera í Verka­lýðsfé­lagi Akra­ness. Þá stóð eft­ir ein krafa sem var um skaðabæt­ur vegna þess tjóns sem fé­lagið hafði orðið fyr­ir. Það var ekki hægt að sýna fram á skaða því það var búið að upp­fylla allt. Þetta var fullnaðarsig­ur í mál­inu en hafðist ekki fyrr en búið var að vísa mál­inu til fé­lags­dóms.“

Vil­hjálm­ur sagði að VLFA væri enn í mál­ferl­um við Hval hf. og ræki sjö mál fyr­ir Héraðsdómi Vest­ur­lands til staðfest­ing­ar á hæsta­rétt­ar­dómi sem féll VLFA í vil á liðnu sumri.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: