Landsréttur staðfesti í dag þriggja og hálfs árs dóm yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot hans gegn dóttur sinni. Er hann fundinn sekur um að hafa látið dóttur sína snerta kynfæri sín auk þess að hafa snert kynfæri hennar og fróað sér í návist hennar. Þarf maðurinn að greiða stúlkunni 1,7 milljónir í bætur. Þá er manninum gert samkvæmt dómi Landsréttar að greiða 945 þúsund krónur í áfrýjunarkostnað.
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að barnaverndarnefnd hafi lagt fram kæru vegna málsins árið 2016. Hafði dóttirin greint frá því að „stundum þegar hún og pabbi hennar væru tvö ein nuddaði hún á honum typpið. Stúlkan hefði jafnframt sagt að ákærði nuddaði á henni klobbann og stundum potaði hann fingri inn.“
Sagði stúlkan frá þessum atvikum bæði við ömmusystur sína og við móður.
Faðir stúlkunnar neitaði sök við þingfestingu í héraði, en við aðalmeðferð sagði hann að ásakanirnar væru á misskilningi byggðar. Greindi hann frá því að dóttir hans hefði tekið uppþvottalög af vaski á baðherberginu og notað sem sápu í baði og við það fengið sviða og roða á kynfærasvæðinu. Hafi hann reynt að skola lögin af og borið krem á til að draga úr sviðanum. Þá sagði hann stúlkuna hafa gripið í typpið á sér þegar þau voru í sturtu, en hann sagt henni að svona gerði maður ekki.
Stúlkan sagði í skýrslutöku hjá Barnahúsi að sig minnti ekki til að hafa sviðið í klofið. Þá lýsti hún því hvernig faðir hennar hafi hagað sér þegar hann fróaði sér og sagði að það hefði verið hann sem gerði „eitthvað“ við typpið þegar það kom „eitthvað“ upp úr því. Sagðist stúlkan ekki hafa getað „gert svona lengi og hratt og pabbi.“
Segir í dómi héraðsdóms að fyrir liggi stöðugur og greinargóður framburður stúlkunnar. Telur sálfræðingur vandséð að hún hefði getað lýst atvikum með þessum hætti öðruvísi en að hafa upplifað þá sjálf. Skýringar þær sem ákærði hefur gefið á frásögn stúlkunnar fá hins vegar hvorki haldbæra stoð í framburði vitna né framlögðum gögnum. Þykir því mega slá því föstu, svo ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum, að því er segir í dóminum, að maðurinn hafi gerst sekur um brotið.
Er hann sagður hafa brotið alvarlega gegn stúlkunni og nýtt sér yfirburðarstöðu gagnvart henni. Þykir hæfileg refsing því vera þrjú ár og sex mánuðir. Vísaði Landsréttur í niðurstöður héraðsdóms og staðfesti fyrri dóm.