Ellefu sagt upp hjá HB Granda

Verksmiðja HB Granda á Vopnafirði.
Verksmiðja HB Granda á Vopnafirði. Ljósmynd/HB Grandi

Ellefu starfsmönnum frystihúss HB Granda á Vopnafirði hefur í dag verið sagt upp störfum. Skammt er síðan þremur öðrum starfsmönnum var sagt upp og þá munu tveir starfsmenn til viðbótar vera að láta af störfum, en ekki stendur til að ráða í þeirra stöður.

AFL starfsgreinafélag greinir frá þessu í tilkynningu, en þar segir að alls hafi með þessu 16 störf horfið á stuttum tíma, sem jafngildi 5.600 störfum á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem innan við 100 starfsmenn séu starfandi í frystihúsinu sjálfu muni félagið hafa samband við Vinnumálastofnun og kanna hvort lög um fjöldauppsagnir eigi við.

Heimildir félagsins eru enn fremur sagðar herma að frekari uppbyggingu HB Granda á Vopnafirði hafi verið hætt.

Austurfrétt greindi fyrst frá málinu.

mbl.is