Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt, sem hlutfall af heildartekjum, lækkaði milli áranna 2016 og 2017. Í fiskveiðum og -vinnslu, án milliviðskipta, lækkaði hlutfallið úr 25,4% í 21,1%. Í fiskveiðum lækkaði hlutfallið úr 24,2% í 18,2% og í fiskvinnslu úr 11,9% í 10,6%.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni, sem árlega tekur saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs.
Bent er á að hreinn hagnaður (EBT) í sjávarútvegi, samkvæmt árgreiðsluaðferð, hafi numið 6,5% á síðasta ári, samanborið við 14,4% árið 2016. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 11,8 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 26,7 milljarðar. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 6,8% hagnaður árið 2017 eða 12,5 milljarður, samanborið við 24% hagnað árið 2016.
Þess er getið að á rekstrarárinu 2017 hafi gætt áhrifa verkfalls sjómanna, sem hófst í desember 2016 og stóð í tæpar 10 vikur. Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum hafi þá lækkað um 6,7% frá fyrra ári og verð á olíu hækkað að meðaltali um 25% á milli ára. Gengi bandaríkjadals hafi á sama tíma veikst um 11,6% og gengi EUR um 9,8%.
„Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild dróst saman um 15,2%, og nam rúmum 197 milljörðum króna á árinu 2017. Verð á útflutningsvörum í sjávarútvegi lækkaði um 12,1% og magn útfluttra sjávarafurða dróst saman um 3,5%. Á árinu 2017 störfuðu um 7.600 manns við sjávarútveg í heild, sem er um 3,9% af vinnuafli á Íslandi. Veiðigjald útgerðarinnar lækkaði úr 6,9 milljörðum króna fiskveiðiárið 2015/2016, í 4,6 milljarða króna fiskveiðiárið 2016/2017,“ segir í yfirliti Hagstofunnar.
Alls voru 837 smábátar að veiðum og öfluðu þeir tæplega 22 þúsunda tonna, að verðmæti rúmlega 4,2 milljarða króna árið 2017.
Bent er á að sem hlutfall af tekjum hafi EBITDA smábáta verið 13,3% árið 2017, borið saman við 13,8% árið 2016.
„Af þessum 837 smábátum var 521 bátur við strandveiðar á árinu. Afli þeirra var um 9.800 tonn og aflaverðmætið tæplega 1,9 milljarðar króna. EBITDA strandveiðanna árið 2017 var 13,9% samanborið við 15,6% árið 2016 og EBITDA annarra báta undir 10 tonnum á almennum veiðum 12,8% samanborið við 11,3% árið 2016.“
Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegsins rúmir 660 milljarðar króna í árslok 2017, heildarskuldir rúmir 384 milljarðar króna (hækkun um 6,9%) og eigið fé tæpir 276 milljarðar króna, að því er fram kemur í yfirlitinu.
„Verðmæti heildareigna hækkaði um 6,2% frá 2016 og fjárfestingar í varanlegum eignum hækkuðu um 10%. Eiginfjárhlutfallið var 41,8% en var 42,2% í árslok 2016. Eins og fram kemur á myndinni hér fyrir neðan hefur eigið fé í sjávarútvegi vaxið hratt síðustu ár, eða úr 29 milljörðum króna árið 2010 í 276 milljarða króna árið 2017.“