„Einfaldlega kolólöglegt“

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, og Heiðveig María Einarsdóttir formannsframbjóðandi.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, og Heiðveig María Einarsdóttir formannsframbjóðandi. mbl.is/Hari mbl.is/Eggert

„Þetta er ein­fald­lega kol­ó­lög­legt, og það er ljóst að þeir hafa ekki unnið sína und­ir­bún­ings­vinnu nógu vel,“ seg­ir Kol­brún Garðars­dótt­ir, lögmaður Heiðveig­ar Maríu Ein­ars­dótt­ur, sem vikið var úr Sjó­manna­fé­lagi Íslands eft­ir að stjórn­ar­menn sökuðu hana um að vinna gegn hags­mun­um fé­lags­ins.

„Þetta er að fara fyr­ir Fé­lags­dóm, það er bara þannig,“ seg­ir Kol­brún í sam­tali við 200 míl­ur og ger­ir um leið at­huga­semd­ir við starfs­hætti Sjó­manna­fé­lags­ins, en trúnaðarmannaráð þess vék Heiðveigu úr fé­lag­inu 25. októ­ber eft­ir að þess var kraf­ist í bréfi frá fjór­um fé­lags­mönn­um.

„Í raun og veru hefði ég haldið að bera hefði átt ákvörðun trúnaðarmannaráðs und­ir fé­lags­fund. Ekki er kveðið á um slíkt ferli í lög­um fé­lags­ins en ég held að all­ur fram­gang­ur­inn í þessu máli sé á skjön við all­ar heil­brigðar regl­ur í vinnu­rétti,“ seg­ir Kol­brún.

„Þetta er því fordæmalaust, eftir því sem ég fæ best …
„Þetta er því for­dæma­laust, eft­ir því sem ég fæ best séð,“ seg­ir Kol­brún.

Lög fé­lags­ins bund­in af lög­um frá Alþingi og stjórn­ar­skrá

Í til­kynn­ingu sem Heiðveig fékk senda frá fé­lag­inu á þriðju­dag seg­ir að stuðst hafi verið við heim­ild í a- og b-lið 10. grein­ar laga fé­lags­ins, en við síðustu skoðun á lög­un­um seg­ir í b-lið grein­ar­inn­ar að hver sá maður sé brott­ræk­ur úr fé­lag­inu, í lengri eða skemmri tíma, sem að áliti trúnaðarmannaráðsfund­ar hafi unnið gegn hags­mun­um fé­lags­ins, valdið því tjóni eða gert því eitt­hvað til vansa.

„Þó að lög fé­lags­ins kveði á um eitt­hvað ákveðið, þá eru þau auðvitað bund­in af lög­um frá Alþingi og stjórn­ar­skrár­vörðum rétti manna til jafn­ræðis og fé­laga­frels­is,“ seg­ir Kol­brún og bæt­ir við að hún hafi und­an­farna daga leitað eft­ir dóma­for­dæm­um í svipuðum mál­um. Leita þurfi þó langt aft­ur.

„Þetta hef­ur í raun ekki þekkst síðan á sjötta ára­tugn­um; að reynt sé að víkja fé­lags­manni úr fé­lagi með þess­um hætti. Og meira að segja þá dæmdi Fé­lags­dóm­ur brott­vikn­ing­una ólög­mæta. Þetta er því for­dæma­laust, eft­ir því sem ég fæ best séð – að fé­lags­manni sé vikið úr verka­lýðsfé­lagi fyr­ir eig­in­lega það eitt að bjóða sig fram til for­manns,“ seg­ir Kol­brún.

„Formaður Sjó­manna­fé­lags­ins hef­ur að vísu bent á að öðrum fé­lags­manni hafi verið vikið úr fé­lag­inu fyr­ir ein­hverj­um fimmtán árum, en þá hef­ur ef­laust ekki verið mik­ill ágrein­ing­ur um það eða viðkom­andi samþykkt brott­vikn­ing­una.“

Stang­ist á við meg­in­reglu um jafn­ræði

Kol­brún seg­ist einnig hafa rætt mál Heiðveig­ar við nokkra sér­fræðinga í vinnu­rétti, sem séu sama sinn­is.

„Þeir hafa bent á að eft­ir dóma­for­dæmi Fé­lags­dóms frá um­rædd­um tíma, það er frá sjötta ára­tug síðustu ald­ar, þá hef­ur þetta bara lagst af – að mönn­um sé vikið úr fé­lög­um með þess­um hætti. Nema þeir hafi gerst al­var­lega brot­leg­ir við lög eða málið sé ann­ars þess eðlis.“

Bend­ir hún enn frem­ur á að nýtt og um­deilt ákvæði lag­anna, um að til að hljóta kjörgengi þurfi fé­lags­menn að hafa greitt fé­lags­gjöld í þrjú ár þar á und­an, stang­ist á við meg­in­reglu ís­lensks rétt­ar um jafn­ræði.

„Ég er ekki að vé­fengja það að þessi laga­breyt­ing hafi verið tek­in fyr­ir á fundi og hún samþykkt, held­ur velti ég fyr­ir mér hvort það stand­ist lög að gera þetta að skil­yrði fyr­ir kjörgengi.“

Ekki hægt að setja skil­yrði upp úr þurru

Í sam­tali við 200 míl­ur, sem birt­ist í ViðskiptaMogg­an­um í dag, seg­ir Jón­as Garðars­son, formaður Sjó­manna­fé­lags­ins, að til­gang­ur ákvæðis­ins hafi verið að koma í veg fyr­ir að van­hæft fólk yrði kosið til ábyrgðarstarfa. Í fé­lag­inu, eins og flest­um öðrum, hafi menn verið vald­ir í ábyrgðar­stöður eft­ir að hafa sýnt fram á áhuga á mál­efn­inu.

„Það er í raun eina leiðin til að sjá hvort menn verði virk­ir í starf­inu. Þess vegna er þessi þriggja ára regla sett; svo að menn hafi tíma til að sanna sig og geti sýnt fram á að þeir séu að meina eitt­hvað. Það væri erfitt að taka fólk inn af göt­unni – af­leys­inga­fólk líkt og í til­viki Heiðveig­ar – og kom­ast síðar að því að ekk­ert gagn er að því í starfi fé­lags­ins.“

„Það hefði þá þurft að vera ein­hver regla til staðar um hæfi fólks til að gegna ábyrgðar­stöðum,“ seg­ir Kol­brún um þenn­an rök­stuðning. „Það er ekki bara hægt að setja svona skil­yrði upp úr þurru,“ bæt­ir hún við og bend­ir jafn­framt á að ef ein­hver sem virt­ist óreynd­ur og óhæf­ur byði sig fram í embætti inn­an fé­lags­ins myndu fé­lags­menn ef­laust hafna viðkom­andi í kosn­ingu. „Jafn­ræðis­regl­an, um að geta verið kjörgeng­ur til starfa í eig­in fé­lagi, er al­gjör­lega þurrkuð út þarna.“

„Stenst enga skoðun“

Kol­brún seg­ir að ekki síst séu skyld­ur fé­lags­ins til að upp­lýsa sína fé­lags­menn, um rétt­indi þeirra og skyld­ur, al­gjör­lega van­virt­ar.

„Mál­flutn­ing­ur Sjó­manna­fé­lags­ins geng­ur út á að regl­um um kjörgengi hafi verið breytt á aðal­fundi í des­em­ber 2017 og þess vegna sé allt lög­legt hvað það varðar,“ seg­ir hún.

„En þegar Heiðveig María send­ir þeim er­indi á vin­sam­leg­um nót­um í maí á þessu ári, um að hún hygg­ist setja sam­an lista og ósk­ar upp­lýs­inga um regl­ur um kjörgengi og annað, þá tel­ur starfsmaður fé­lags­ins ekki þörf á því að upp­lýsa hana um þessa veiga­miklu breyt­ingu, hvorki í tölvu­pósti, né í heim­sókn henn­ar á skrif­stofu fé­lags­ins dag­inn eft­ir þar sem hún fylgdi er­indi sínu eft­ir.“

Um­rædd laga­breyt­ing var ekki birt á vef fé­lags­ins fyrr en um síðustu mánaðamót, eins og Heiðveig hef­ur bent á, tíu mánuðum eft­ir að hún á að hafa tekið gildi.

„Það er upp­hafið að gagn­rýni henn­ar á fé­lagið, sem end­ar með þess­um ósköp­um af hálfu stjórn­ar og trúnaðarráðs SÍ um brottrekst­ur úr stétt­ar­fé­lagi – sem stenst enga skoðun.“

mbl.is