„Þetta kemur mér ekki á óvart,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda og eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, um álit fyrirtækjaráðgjafar Kviku sem birt var í gær.
Álitið, sem lífeyrissjóðurinn Gildi sem hluthafi í HB Granda óskaði eftir að yrði gert, laut að því hvort kaup HB Granda á útgerðinni Ögurvík frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur væru hagfelld.
Í álitinu kemur fram að stjórnendur HB Granda telji að EBITDA-framlegð á hvert kíló aflaheimilda muni batna á milli ára vegna hagfelldari markaðsaðstæðna og ytri skilyrða ásamt lækkun kostnaðar vegna samþættingar og hagfelldari nýtingar eigna samþætts félags
„Það þýðir ekkert að vera í útgerð ef þú átt ekki aflaheimildir,“ segir Guðmundur inntur eftir frekari viðbrögðum í samtali við ViðskiptaMoggann í dag.
Niðurstaða ráðgjafarinnar var sú, að séu forsendur stjórnenda HB Granda raunhæfar, fyrir kaupum félagsins á Ögurvík, þá séu kaupin hagfelld fyrir félagið. Ekki var þó lagt mat á hvort forsendur stjórnendanna séu raunhæfar.