Leikstjóri frönsku kvikmyndarinnar Blue is the Warmest Colour, sem meðal annars vann til verðlauna sem besta kvikmyndin á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2013, hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi.
Greint er frá því á fréttastofu AFP að 29 ára gömul kona hafi leitað til yfirvalda vegna ofbeldis sem hún hafði orðið fyrir af hendi Abdellatif Kechiche eftir matarboð í íbúð í París í júní á þessu ári. Konan segist hafa sofnað eftir að hafa drukkið nokkra áfenga drykki og vaknað, hálfnakin, við það að Kechiche væri að brjóta á henni.
Leikstjórinn er sagður neita ásökunum konunnar, sem hafi enga aðra leið til að verða fræg en með því að leika fórnarlamb.
Blue is the Warmest colour er þriggja klukkustunda löng kvikmynd um ástarsamband bláhærðrar listakonu við unga menntaskólastúlku. Kvikmyndin vakti mikla og jákvæða athygli um allan heim, og hlaut meðal annars Cannes-verðlaun, en opinber átök leikstjórans við leikkonur kvikmyndarinnar vörpuðu skugga á velgengnina.
Léa Seydoux, önnur aðalleikkona kvikmyndarinnar, segist hafa liðið eins og vændiskonu við tökur á löngum og nákvæmum kynlífsatriðum og lýsti upplifun sinni af því að vinna með Kechiche ömurlegri.