Á annað hundrað óska eftir félagsfundi

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, og Heiðveig María Einarsdóttir formannsframbjóðandi.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, og Heiðveig María Einarsdóttir formannsframbjóðandi. mbl.is/Hari mbl.is/Eggert

Vel á annað hundrað manns hafa óskað eft­ir að stjórn Sjó­manna­fé­lags Íslands boði inn­an sól­ar­hrings til fé­lags­fund­ar, í ljósi grafal­var­legr­ar stöðu fé­lags­ins. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu sem send hef­ur verið 200 míl­um.

Um er að ræða und­ir­skriftal­ista sem sjá má á vefn­um Ísland.is, en þar er lög­mæti und­ir­skrift­ar kannað jafnóðum enda kerfið hannað til að geta haldið utan um und­ir­skrifta­safn­an­ir hvers kon­ar.

Heiðveig verði boðuð á fund­inn

Þess er sér­stak­lega óskað að Heiðveig María Ein­ars­dótt­ir, for­manns­fram­bjóðandi sem vikið var úr fé­lag­inu vegna ásak­ana á hend­ur stjórn fé­lags­ins, verði boðuð á fund­inn vegna óljóss lög­mæt­is brott­vikn­ing­ar­inn­ar.

Enn frem­ur er lagt til að feng­inn verði óháður og van­ur fund­ar­stjóri til að stjórna fund­in­um, þar sem bú­ast megi við átaka­mikl­um fundi. Lagt er til að Ein­ar Gaut­ur Stein­gríms­son lögmaður verði feng­inn til að sinna því verki.

Þá er þess óskað að ráðstaf­an­ir verði gerðar til að fé­lags­menn sem búa fjarri höfuðborg­inni og/​eða séu á sjó geti tekið þátt á fund­in­um með fjar­fund­ar­tækni og að fengið verði upp­lýs­inga­tæknifyr­ir­tæki á borð við Advania til að stýra tækni­mál­um er varða fjar­fund­ar­búnað og ra­f­ræna kosn­ingu.

Hafi tveggja sól­ar­hringa fyr­ir­vara

Einnig er stjórn­in beðin um að hafa tveggja sól­ar­hringa fyr­ir­vara í fund­ar­boðinu og er vísað til 19. grein­ar laga fé­lags­ins, sem hljóðar svo: 

Fé­lags­fund­ur skal hald­inn þegar stjórn­in álít­ur til­efni til eða ef að minnsta kosti 100 fé­lags­menn óska þess skrif­lega enda sé um leið gerð grein fyr­ir verk­efni slíks fund­ar. Fé­lags­fund­ur er lög­mæt­ur ef lög­lega er til hans boðað. Til fund­ar skal boða með tveggja sól­ar­hringa fyr­ir­vara. Ef fé­lags­fund­ur er hald­inn und­ir sér­stök­um kring­um­stæðum og tveir sól­ar­hring­ar ekki liðnir frá því að fund­ur var boðaður ber í upp­hafi fund­ar að leita samþykk­is fund­ar­manna um að fund­ur­inn skuli telj­ast lög­mæt­ur. Fé­lags­fund­ur get­ur ekki ákv­arðað fjár­hags­skuld­bind­ing­ar.“

Á vef und­ir­skriftal­ist­ans seg­ir þá:

„Okk­ur, sem setj­um nafn okk­ar á þenn­an und­ir­skrift­arlista, finnst mik­il­vægt að fé­lags­fund­ur komi sam­an í því skyni að fé­lags­menn geti tekið af­stöðu til þess hver séu gild­andi lög fé­lags­ins og leiðbeint stjórn Sjó­manna­fé­lags Íslands í því efni áður en lengra er haldið. Máli okk­ar til stuðning vís­um við til rétt­mæt­is­regl­unn­ar og til mik­il­væg­is þess að ekki leiki vafi á gild­andi lög­um í fé­lag­inu.“

mbl.is