„Hreinlega hættur að botna neitt í þessu“

„Þær ætla að draga okkur fyrir dóm og þá gerist …
„Þær ætla að draga okkur fyrir dóm og þá gerist það náttúrulega bara,“ segir Jónas. mbl.is/Hari

„Við höf­um aldrei skipt okk­ur af neinu í öðrum fé­lög­um, og mér finnst það vera einka­mál hvers fé­lags fyr­ir sig hvernig menn hátta sín­um mál­um,“ seg­ir Jón­as Garðars­son, formaður Sjó­manna­fé­lags Íslands, spurður hvort hann taki mark á gagn­rýni formanna VR, Efl­ing­ar, Fram­sýn­ar og VLFA.

„Það hef­ur þá eitt­hvað breyst“

„En hluti af þessu er nátt­úru­lega sá, að ef sam­ein­ing­in hefði gengið eft­ir þá hefðu hin fé­lög­in fjög­ur sagt sig með því úr Alþýðusam­band­inu. Því má ekki gleyma,“ bæt­ir hann við og vís­ar þar til sam­ein­ing­ar­viðræðna fé­lags­ins við Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lag Grinda­vík­ur, Sjó­manna­fé­lag Eyja­fjarðar, Sjó­manna­fé­lag Hafn­ar­fjarðar og Sjó­manna­fé­lagið Jöt­un.

Sjó­manna­fé­lagið Jöt­unn til­kynnti síðdeg­is í dag að ásak­an­ir Heiðveig­ar Maríu Ein­ars­dótt­ur í garð stjórn­ar Sjó­manna­fé­lags Íslands hefðu ekki verið ein­ar og sér ástæða þess að viðræðum um sam­ein­ingu fé­lag­anna var slitið.

Spurður hvort hann kann­ist við aðrar þær ástæður, sem Sjó­manna­fé­lagið Jöt­unn bend­ir á að hafi verið til staðar, svar­ar Jón­as neit­andi.

„Það hef­ur þá eitt­hvað breyst, því í til­kynn­ing­unni um viðræðuslit­in sem fé­lög­in sendu okk­ur voru aðeins nefnd­ar þess­ar ávirðing­ar Heiðveig­ar,“ seg­ir Jón­as. „Við höf­um bara þessa einu til­kynn­ingu frá þeim og vit­um í raun ekki meir. Nú er ég hrein­lega hætt­ur að botna neitt í þessu.“

Kosið um næsta formann í nóv­em­ber

Kol­brún Garðars­dótt­ir, lögmaður Heiðveig­ar, sagði í sam­tali við 200 míl­ur í gær að farið yrði með mál henn­ar fyr­ir Fé­lags­dóm. „Þetta er ein­fald­lega kol­ó­lög­legt, og það er ljóst að þeir hafa ekki unnið sína und­ir­bún­ings­vinnu nógu vel,“ sagði hún.

„Þá hlýt­ur málið bara að fara í þann far­veg. Þær ætla að draga okk­ur fyr­ir dóm og þá ger­ist það nátt­úru­lega bara. Það hlýt­ur að vera leiðin til að fara, ef það er allt ólög­legt sem við ger­um.“

Jón­as seg­ir að kosið verði um næsta formann fé­lags­ins nú í nóv­em­ber, en áður hef­ur hann sagst ekki munu bjóða sig fram að nýju.

200 míl­ur greindu frá því síðdeg­is í dag að vel á annað hundrað manns hefðu skrifað und­ir lista þar sem þess er kraf­ist að stjórn Sjó­manna­fé­lags­ins boði til fé­lags­fund­ar inn­an næsta sól­ar­hrings. Aðspurður seg­ist Jón­as ekki kann­ast við þá kröfu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina