SÍ hljóti að draga lærdóm af dómnum

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans.
Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans. mbl.is/Hari

Gylfi Magnús­son, formaður bankaráðs Seðlabank­ans, seg­ir að Seðlabank­inn hljóti að draga lær­dóm af dómi Hæsta­rétt­ar sem staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í apríl í fyrra um að felld skyldi úr gildi 15 millj­óna króna stjórn­valds­sekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyr­ir­tækið Sam­herja fyr­ir brot á gjald­eyr­is­lög­um.

„En ég get ekki sagt neitt um það hver lær­dóm­ur­inn kann að vera þar sem ekki er búið að ræða þetta á fundi bankaráðs,“ seg­ir Gylfi í sam­tali við mbl.is. Hlut­verk bankaráðs er einkum að hafa eft­ir­lit með starf­semi bank­ans og tel­ur Gylfi því eðli­legt að bankaráð skoði niður­stöðu dóms­ins.

Gylfi á eft­ir að kynna sér dóm­inn í heild sinni og vill því ekki full­yrða hvort bankaráðið hefði átt að grípa inn í á ein­hverj­um tíma­punkti, í ljósi þess að Hæstirétt­ur kemst að þeirri niður­stöðu að fella eigi úr gildi stjórn­valds­sekt­ina sem Seðlabank­inn lagði á Sam­herja.

„Þar fyr­ir utan þá er þetta mál sem á sér lang­an aðdrag­anda. Það hefði þá verið bankaráð sem sat á þeim tíma, sem ég sat ekki í, sem hefði hugs­an­lega átt að grípa til ein­hverra aðgerða,“ seg­ir Gylfi.

Ótíma­bært að tala um stöðu seðlabanka­stjóra

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, seg­ir í sam­tali við Morg­un­blaðið í dag að niðurstaða dóms­ins sýni að Seðlabank­an­um hafi mistek­ist að sinna hlut­verki sínu í að tryggja stöðug­leika og sýna sann­girni í störf­um sín­um. Þor­steinn fer fram á að Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri og yf­ir­lög­fræðing­ur bank­ans segi upp störf­um sín­um nú þegar og að það sé hlut­verk bankaráðs að sjá til að svo verði gert.

„Fram­ferði hans [seðlabanka­stjóra] gagn­vart Sam­herja og mörg­um öðrum er ekk­ert annað en glæp­sam­legt og tel ég stjórn­völd­um ekki stætt á að hafa slík­an mann í stóli seðlabanka­stjóra,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við Morg­un­blaðið í dag.

Gylfi vill ekk­ert segja um það hvort til greina komi að end­ur­skoða stöðu seðlabanka­stjóra í ljósi niður­stöðu dóms­ins en að það sé full ástæða til að fara yfir niður­stöðu hans. Bankaráð kem­ur næst sam­an 21. nóv­em­ber og ger­ir Gylfi fast­lega ráð fyr­ir því að farið verði yfir niður­stöðu dóms­ins á fund­in­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina