Nítján sagt upp hjá HB Granda

Nýju skipin í höfn. HB Grandi hefur keypt þrjá nýja …
Nýju skipin í höfn. HB Grandi hefur keypt þrjá nýja ísfisktogara undanfarin misseri. Ljósmynd/Þröstur Njálsson

Nítján skipverjum um borð í Helgu Maríu AK, ísfisktogara HB Granda, hefur verið sagt upp. Ástæðan er óvissa innan útgerðarinnar um hvað gera skuli við skipið, en síðustu tvö ár hefur HB Grandi tekið við þremur nýjum ísfisktogurum.

Þetta staðfestir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri HB Granda, í samtali við 200 mílur. Segir hann að um sé að ræða þá skipverja sem njóta samkvæmt kjarasamningi þriggja mánaða uppsagnarfrests.

Fimmtán eru í áhöfn hverju sinni á skipinu og segir Ægir að 21 maður hafi verið ráðinn á skipið með afleysingarmönnum. „Þetta eru samtals nítján, sem fengu uppsagnarbréf,“ segir Ægir, en uppsagnarbréfin bárust skipverjum í síðustu viku.

Fimmtán eru í áhöfn hverju sinni á skipinu.
Fimmtán eru í áhöfn hverju sinni á skipinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Endurskipuleggja skipastólinn

Munu þeir sem njóta skemmri uppsagnarfrests eiga von á uppsagnarbréfi síðar?

„Það fer eftir því hvað við gerum við skipið. Það er í rekstri enn þá og við erum ekki búin að ákveða hvenær við stoppum það. Við fjárfestum nýlega í þremur öflugum ísfiskskipum og erum að endurskipuleggja skipastólinn í framhaldi af því.“

Spurður hvort skipverjunum hafi verið boðin pláss á öðrum skipum útgerðarinnar segir Ægir að ekki hafi enn reynt á það. „Þeir eru í vinnu enn á Helgu, en ef til þess kemur að hún stoppar þá munum við leitast við að bjóða þeim það. Það hefur áður verið gert hér hjá félaginu.“

Helga María er skráð til hafnar á Akranesi, en skammt er síðan HB Grandi sagði þar upp fjórum starfsmönnum í bræðslunni.

mbl.is