Segir sig úr stjórn Vinnslustöðvarinnar

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum.
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Magnús Helgi Árnason hefur sagt sig úr stjórn Vinnslustöðvarinnar. Þetta kemur fram á vef útgerðarinnar, en þar segir að hann hafi sagt sig úr stjórninni í kjölfar fundar hennar, þar sem fyrir lá tillaga um að boða til hluthafafundar og afgreiða tillögu um vantraust á hendur honum.

Seil ehf., langstærsti hluthafi félagsins, mun hafa lagt fram tillöguna. Magnús Helgi var kjörinn í stjórn Vinnslustöðvarinnar á síðasta aðalfundi hennar, með stuðningi Brims hf., nú Útgerðarfélags Reykjavíkur, félags Guðmundar Kristjánssonar.

Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur síðan þá selt eignarhlut sinn í Vinnslustöðinni, eins og 200 mílur greindu frá.

„Eyjamenn, eigendur meirihluta hlutafjár VSV, gerðu þá ráð fyrir því að Magnús Helgi myndi segja sig strax úr stjórn félagsins. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en á föstudaginn þegar komin var fram tillaga Seilar um hluthafafund í VSV og að fjallað yrði þar um vantraust á stjórnarmanninn. Fyrir lá að enginn hluthafi VSV óskaði lengur eftir kröftum hans í stjórn VSV,“ segir á vef útgerðarinnar.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Rakalaus þvættingur um misferli og lögbrot

Bent er þá á að í tölvupóstum sem Magnús Helgi mun hafa sent stjórnarmönnum Vinnslustöðvarinnar, í aðdraganda fundarins, hafi hann fjallað um tiltekna þætti í viðskiptum félagsins erlendis og beint því til stjórnarinnar að kanna þá frekar.

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og einn af eigendum Seilar ehf., segir að þessi orðsending fráfarandi stjórnarmanns sverji sig í ætt við annað úr þeirri átt og sé enn einn kafli langrar sögu þar sem þeir Magnús Helgi og Guðmundur Kristjánsson hafi farið gegn stjórnendum og stærstu eigendum VSV með dylgjum, mannorðsmeiðingum og rakalausum þvættingi um misferli og lögbrot.

„Magnús Helgi heldur áfram að reyna að gera okkur stjórnendur VSV tortryggilega á alla lund og vill láta líta svo út að úrsögn hans snúist um eitthvað allt annað en þá staðreynd að hann átti ekkert bakland lengur í eigendahópi VSV. Vinnubrögðin eru kunnugleg og í samræmi við annað sem við höfum áður kynnst í samskiptum við manninn.“

Eyjólfur Guðjónsson mun hafa tekið sæti Magnúsar í aðalstjórn Vinnslustöðvarinnar.

mbl.is