Attenborough hefði bjargað mörgæsunum

Keisaramörgæsir á Suðurskautslandinu.
Keisaramörgæsir á Suðurskautslandinu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Nátt­úru­lífs­sjón­varps­maður­inn kunni Sir Dav­id Atten­borough hefði líka bjargað keis­ara­mörgæs­un­um, þetta full­yrða fram­leiðend­ur nátt­úru­lífsþátt­anna Dyn­asties um þátt sem vakið hef­ur mikið um­tal hjá bresk­um sjón­varps­áhorf­end­um.

Í þætt­in­um, sem sýnd­ur var á BBC, sést upp­töku­teymið koma fjölda mörgæsa sem voru í sjálf­heldu til hjálp­ar. Al­menna regl­an varðandi mynd­un nátt­úr­lífsþátta er hins veg­ar sú að grípa ekki inn í, held­ur leyfa nátt­úr­unni að hafa sinn gang.

Mike Gunt­on, fram­leiðandi þátt­anna, seg­ir aðstæður þarna hins veg­ar hafa verið óvenju­leg­ar. „Ég var að ræða málið við Dav­id í gær og hann sagði að hann hefði gert það sama,“ hef­ur BBC eft­ir Gunt­on.

Sjálf­ur var hann ekki viðstadd­ur tök­urn­ar þegar mynda­töku­teymið ákvað að höggva tröpp­ur inn í snævi þakið gil þar sem mörgæs­irn­ar og ung­ar þeirra voru fast­ar. Hann kveðst þó engu að síður sjálf­ur líka hafa gripið inn í. „Það eru óvenju­leg­ar aðstæður þegar maður ger­ir svona,“ sagði hann. „Og það eru fjöl­marg­ar aðstæður þar sem maður hvorki get­ur, ætti, né myndi gera það.“ Margt hafi hins veg­ar leitt til þess að þessi ákvörðun var tek­in.

„Eng­in dýr hefðu liðið fyr­ir að gripið var inn í. Það var ekki hættu­legt. Það þurfti ekki að snerta dýr­in og með því að gera þetta þá var hægt að koma í veg fyr­ir að þær héldu áfram að renna niður gilið,“ sagði Gunt­on.

Í þætt­in­um sjást vind­hviður feykja fjölda kven­kyns mörgæsa niður í gil sem þær komust ekki upp úr aft­ur af því að bratt­ar hlíðarn­ar voru þakt­ar snjó og ís.

Fjöldi sam­fé­lags­miðlanot­enda hef­ur lofað  mynda­töku­teymið fyr­ir að bjarga mörgæs­un­um, meðal ann­ars  fót­bol­takapp­inn fyrr­ver­andi Gary Lineker. Þá sagði þingmaður­inn Pete Wis­hart at­viks­ins vera minnst sem „sér­stakr­ar stund­ar í nátt­úru­lífs­mynda­tök­um.“

mbl.is