Viðræðuhópur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og ríkisins hefur skilað niðurstöðu varðandi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þar er m.a. fjallað um áform um borgarlínu. Fulltrúar ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu munu nú yfirfara tillögurnar. Þær verða ekki birtar opinberlega fyrr en þeirri yfirferð lýkur.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir niðurstöðurnar mikilvægan áfanga í að ná sameiginlegri sýn á uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi samningur ríkis og sveitarfélaga varðandi eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, á kostnað uppbyggingar samgöngumannvirkja, renni út árið 2022. Augljóst sé að taka verði upp þann samning. Samningurinn var gerður 2012 og gildir til 2022.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Ingi umhverfis- og samgöngunefnd leggja mikla vinnu við að ljúka samgönguáætlun fyrir jólahlé þingsins. Hann segir aðspurður m.a. horft til þess að nýta slíka gjaldtöku við uppbyggingu þjóðvega frá höfuðborgarsvæðinu.