Mótmælendur krefjast svara eftir að lögreglan í Alabama í Bandaríkjunum viðurkenndi að hún hefði skotið mann til bana sem ranglega var grunaður um að hafa skotið á fólk í verslunarmiðstöð.
Emantic Fitzgerald Bradford, 21 árs, var skotinn til bana en í upprunalegri tilkynningu frá lögreglu sagði að Bradford hafi tekið upp byssu og hafið skothríð eftir að slagsmál brutust út í verslunarmiðstöðinni.
Yfirvöld hafa nú viðurkennt að Bradford hafi líklega ekki verið byssumaðurinn og að sá maður gangi enn laus.
Um það bil 200 mótmælendur fylktu liði í gær og kröfðu lögreglu um svör.
„Hvar eru upptökurnar úr myndavélum lögreglu? Af hverju höfum við ekki fengið að sjá þær?“ spurði einn mótmælenda. Lögreglumaðurinn sem skaut Bradford hefur verið sendur í tímabundið leyfi.
April Pipkins, móðir Bradford, sagði í viðtali að sonur hennar hefði verið með leyfi til að bera skotvopn og líklega hafi hann verið að reyna að verja fólk í verslunarmiðstöðunni.
„Hann reyndi að bjarga fólki en var samt myrtur,“ sagði Pipkins.