Mátti ekki setja mál Samherja í sáttaferli

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/​Hari

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri seg­ist hafa rætt um að setja mál Sam­herja í sátta­ferli, áður en fé­lagið var kært í fyrra skiptið fyr­ir brot á gjald­eyr­is­lög­um. Hann fékk hins veg­ar þau svör að hann hefði ekki mátt gera það, því þá hefði hann verið að brjóta lög­in. „Okk­ur ber að kæra.“

Þetta sagði Már sem var gest­ur Kristjáns Kristjáns­son­ar í þætt­in­um Sprengisand­ur á Bylgj­unni í dag. 

Hann benti m.a. á að árin eft­ir hrun hefðu gjald­eyr­is­höft­in lekið.

„Á þess­um tíma láku höft­in all veru­lega, sér­stak­lega á ár­inu 2009. Það bæði vantaði upp á skila­skyld­una og það var verið að koma með af­l­andskrón­ur í stór­um stíl til lands­ins. Menn voru nátt­úru­lega að græða á öllu þessu, en sá hagnaður féll ekki af himn­um ofan. Hann kom úr vasa al­menn­ings. Og okk­ar skylda var að reyna að láta þessi höft halda. Við þurft­um auðvitað að kosta ýmsu til og það tókst að lok­um; þau hert­ust. Ég held að skila­skyld­an, eða skil­in, hafi batnað þegar á leið,“ sagði Már. 

Þetta hafi verið skylda sem bank­inn hafi tekið al­var­lega.

„Okk­ur ber að kæra, við upp­fyll­um það, ef rök­studd­ur grun­ur er; við eig­um ekki að leggja mat á það hvað er best fyr­ir okk­ur. Þetta er bara ótví­ræða skylda,“ sagði Már. 

„Ef menn ætla að segja að þetta hafi verið ein­hvern sér­stök her­ferð frá mér, þá reyndi ég að kanna þann mögu­leika, áður en Sam­herji var kærður í fyrra sinn, sagði við mína lög­fræðinga: „Er ekki hægt að setja þetta mál í sátta­ferli, vegna þess að svona mál eru flók­in?“, og þá var kallað á hæsta­rétt­ar­lög­mann sem sagði bara rétti­lega og las úr blöðunum: „Þú mátt það ekki; þá er þú að brjóta lög­in“,“ sagði Már. Hon­um hafi því borið að kæra þó aðeins lægi fyr­ir grun­ur um brot. 

„Þarna þarf, held ég, að skoða lög­in líka,“ sagði Már.

Eins og fram hef­ur komið, þá staðfesti Hæstirétt­ur fyrr í þess­um mánuði dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í apríl á síðasta ári um að felld skyldi úr gildi 15 millj­óna króna stjórn­valds­sekt sem Seðlabanki Íslands lagði á Sam­herja hf. fyr­ir brot á gjald­eyr­is­lög­um. Þar með lauk mála­rekstri Seðlabank­ans sem hafði staðið yfir í tæp sjö ár. 

Þá hef­ur komið fram, að Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra óskaði eft­ir grein­ar­gerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Sam­herja. Katrín ósk­ar meðal ann­ars eft­ir út­list­un á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabank­inn hygðist bregðast við dómi Hæsta­rétt­ar og hvort dómsniðurstaðan kalli á úr­bæt­ur á stjórn­sýslu bank­ans og þá hverj­ar.

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, hef­ur haldið því fram að Már Guðmunds­son og yf­ir­lög­fræðing­ur SÍ hafi rekið málið gegn Sam­herja áfram af ill­um vilja og er Sam­herji að und­ir­búa skaðabóta­mál á hend­ur SÍ vegna máls­ins. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina