„Þessu máli verður einn daginn að ljúka“

Þorsteinn Már Baldvinsson sést hér mæta til fundarins í Seðlabankanum.
Þorsteinn Már Baldvinsson sést hér mæta til fundarins í Seðlabankanum. mbl.is/​Hari

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, sagði eft­ir fund með bankaráði Seðlabank­ans að fund­ur­inn hafi fyrst og fremst verið upp­lýs­inga­fund­ur. Skoðun hans á því að Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri eigi að víkja úr embætti hef­ur ekki breyst.

Bankaráð boðaði Þor­stein og aðra full­trúa Sam­herja til fund­ar í Seðlabank­an­um klukk­an 14:00 í dag. Fund­ur­inn var rúm­lega tveggja tíma lang­ur og sagði Þor­steinn að Sam­herja­fólk hefði komið sín­um sjón­ar­miðum á fram­færi við bankaráð.

Hæstirétt­ur kvað upp dóm í máli SÍ gegn Sam­herja 8. nóvem­ber. Þar var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að fella úr gildi ákvörðun SÍ frá 1. sept­em­ber 2016 um að Sam­herji skuli greiða 15 millj­ón­ir kr. í stjórn­valds­sekt til rík­is­sjóðs vegna brota á regl­um um gjald­eyr­is­mál.

„Þeir boðuðu til fund­ar­ins vegna skýrslu sem þeir eru að vinna að beiðni for­sæt­is­ráðherra,“ sagði Þor­steinn og bætti við að bankaráð ætti að skila skýrsl­unni 7. des­em­ber.

Hafði ekki komið í bank­ann í sex og hálft ár

Spurður hvort fund­ur­inn hefði breytt ein­hverju, en það hef­ur andað köldu milli Sam­herja og Seðlabank­ans síðustu miss­eri og ár, svaraði Þor­steinn því ekki beint. Hann sagðist þakk­lát­ur fyr­ir að hafa fengið tæki­færi til að hitta bankaráðið.

Ég hef ekki komið inn í bank­ann í sex og hálft ár. Ég þakka fyr­ir að hafa fengið að koma okk­ar sjón­ar­miðum á fram­færi við bank­ann,“ sagði Þor­steinn. Aðspurður sagði hann skoðun sína á seðlabanka­stjóra ekki hafa breyst:

„Ég hef ekki breytt um þá skoðun. Það hef ég sagt en núna ætla ég að bíða eft­ir skýrslu bankaráðs til for­sæt­is­ráðherra. Við skul­um sjá hvað kem­ur út úr henni.“

Doka við eft­ir skýrsl­unni

Áður hef­ur verið greint frá því að Sam­herji und­ir­búi skaðabóta­mál á hend­ur Seðlabanka vegna rann­sókn­ar á meint­um brot­um fyr­ir­tæk­is­ins á regl­um um gjald­eyr­is­mál. „Það hef­ur verið unnið í þeim mál­um en við mun­um doka við og sjá hvað kem­ur úr þess­ari skýrslu. Þessu máli verður einn dag­inn að ljúka.“

Þor­steinn kvaðst ef­ast um orð Más seðlabanka­stjóra um að hann hafi viljað fara með málið í sátta­ferli. Sam­herja­fólk hafi óskað eft­ir því lög­fræðiáliti sem Már seg­ir skoðun sína byggða á. „Okk­ur var svarað af hálfu aðstoðarseðlabanka­stjóra að við hefðum fengið þessa skýrslu, ef við skild­um rétt, sem var vitnað í. Þar seg­ir að að það sé ósenni­legt að málið vinn­ist fyr­ir dóm­stól­um en skýrsl­an er frá 2014,“ seg­ir Þor­steinn og bæt­ir við að hann hafi séð frétt á mbl.is fyrr í dag þar sem seg­ir að skýrsl­an sé ekki skrif­leg, held­ur munn­leg.

„Ég veit ekki hvað er í því máli. Hún er skrif­leg hjá aðstoðarseðlabanka­stjóra og munn­leg hjá seðlabanka­stjóra. Ég veit ekk­ert hvað er rétt í því.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina